Upplifun verðandi mæðra af ómskoðun vegna gruns um vaxtarskerðingu hjá fóstri á meðgöngu

Rannsóknarafurð: Framlag til fræðitímaritsGreinritrýni

Útdráttur

Hérlendis er öllum barnshafandi konum boðin mæðravernd með það að meginmarkmiði að stuðla að líkamlegu- og andlegu heilbrigði móður og barns. Mikilvægt er að greina áhættuþætti eins og vaxtarskerðingu fósturs sem fyrst á meðgöngu þar sem vaxtarskerðing getur bent til þroskafrávika hjá fóstri og/eða orsakað víðtæk vandamál. Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu kvenna af ómskoðun vegna gruns um vaxtarskerðingu hjá fóstri og samskipti
þeirra við heilbrigðisstarfsfólk í tengslum við skoðunina. Þátttakendur voru átta konur sem allar höfðu farið í ómskoðun vegna gruns um vaxtarskerðingu á meðgöngu og eignast heilbrigð börn. Við val á þátttakendum var notað tilgangsúrtak. Unnið var samkvæmt eigindlegri rannsóknaraðferð og fyrirbærafræðilegri nálgun. Gögnum var safnað með hálfstöðluðum viðtölum
og greining fór fram með Vancouver skóla aðferðinni.
Helstu niðurstöður eru að allar konurnar upplifðu vanlíðan í tengslum við grun um vaxtarskerðingu og sumar sjálfsásökun. Aukin bið eftir tíma í ómskoðun orsakaði frekari vanlíðan. Flestum leið illa í skoðuninni sjálfri og voru áhyggjufullar. Öllum var létt að henni lokinni. Upplifun kvennanna
af mæðravernd var yfirleitt góð og voru þær ánæðgar með almenna upplýsingagjöf og viðmót ljósmæðra og lækna. Niðurstöður viðtalanna sýna fram á mikilvægi trausts og upplýsingagjafar í mæðravernd þegar grunur vaknar um vaxtarskerðingu hjá fóstri. Aukin þekking á reynslu kvenna af ómskoðun vegna gruns um vaxtarskerðingu fósturs gefur fagfólki tækifæri til að endurmeta nálgun í umræðu um vaxtarskerðingu fósturs á meðgöngu.
Upprunalegt tungumálÍslenska
Síður (frá-til)24-30
Síðufjöldi7
FræðitímaritLjósmæðrablaðið
Bindi89
Númer tölublaðs1
ÚtgáfustaðaÚtgefið - júl. 2011

Vitna í þetta