Viðhorf íslenskra grunnskólanema til eineltis og inngripa í eineltismál út frá reynslu þeirra af einelti

Vanda Sigurgeirsdóttir, Arsaell Arnarsson

Research output: Contribution to journalArticle

Abstract

Einelti er algengt og alvarlegt vandamál í skólastarfi. Þó að skólayfirvöld hér á landi hafi gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við einelti hefur árangurinn ekki verið eins góður og vonast var til. Í þessari rannsókn var skoðuð reynsla íslenskra grunnskólanema af einelti og jafnframt könnuð viðhorf þeirra til ýmissa þátta, eins og inngripa kennara, ábyrgðar nemenda, viðbragða áhorfenda og eineltisáætlana skóla. Rannsóknarspurningar voru eftirfarandi: Eru viðhorf nemenda til eineltis ólík eftir reynslu þeirra af einelti? Eru viðhorf nemenda til eineltisáætlana og viðbragða við einelti ólík eftir reynslu þeirra af einelti? Svarendur voru 10.651 nemandi í 6., 8. og 10. bekk á Íslandi veturinn 2013–14 eða 84% af heildarfjölda nemenda í þessum árgöngum. Niðurstöður sýna að hægt er að skipta þátttakendum í fjóra hópa eftir tengslum þeirra við einelti. Hóparnir eru þolendur, gerendur, hvoru tveggja þolendur og gerendur og svo þau börn sem ekki tengjast einelti með beinum hætti. Í rannsókninni voru svör þátttakenda við níu spurningum um einelti skoðuð út frá þessum fjórum hópum. Í ljós kom að viðhorf nemendanna lituðust af reynslu þeirra af einelti. Gerendur og þolendur/gerendur höfðu til að mynda neikvæðari viðhorf til ýmissa þátta. Einnig kom í ljós að aðeins um helmingur þátttakenda taldi sig þekkja eineltisáætlun skóla síns. Þá vakti athygli að um tíu prósent nemenda töldu að einelti væri þolendum að kenna. Auk þess óttaðist nokkur hluti nemenda að mæta í skólann vegna eineltis. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vinna þurfi með viðhorf nemenda og auka umræður og fræðslu um eineltisáætlanir og inngrip í eineltismál.
Original languageIcelandic
Pages (from-to)22 s.
JournalNetla
Volume2018
Publication statusPublished - 19 Dec 2018

Other keywords

  • Börn
  • Einelti
  • Gerendur
  • Grunnskólanemar
  • Grunnskólar
  • Þolendur

Cite this