Abstract
Í marshefti Læknablaðsins ritar Hannes Petersen læknir athyglisverða ritstjórnargrein þar sem hann ræðir stöðu Læknablaðsins sem vísindarits. Hann bendir réttilega á að fræðigreinum hafi ekki fjölgað í blaðinu í takt við vaxandi vísindastarfsemi innan læknisfræði á Íslandi. Að jafnaði birtast í blaðinu fjórar vísindagreinar og hefur sá fjöldi haldist óbreyttur hin síðari ár. Á sama tíma hefur hlutfall annars efnis aukist. Þar sem mér hefur lengi fundist skorta umræðu um Læknablaðið fagna ég mjög frumkvæði Hannesar. Mörg þeirra atriða sem hann nefnir í grein sinni hef ég hugleitt lengi og ég verð að viðurkenna að ég hef haft nokkrar áhyggjur af framtíð blaðsins sem vísindarits. Mér finnst Læknablaðið þó hafa vaxið og eflst hin síðari ár og sem fréttablað og skoðanavettvangur íslenskra lækna er hlutverk þess ótvírætt. Hlutverk þess sem vísindarits er þó mikilvægast. Öflugt læknablað er forsenda þess að á Íslandi sé hægt að birta rannsóknir í læknisfræði á íslenskum efnivið, svo ekki sé minnst á hlutverk blaðsins í kennslu heilbrigðisstétta og fræðslu við almenning. Ég held að flestir geti verið sammála mér í því að niðurstöður rannsókna sem gerðar eru á Íslandi, á íslenskum sjúklingum og af íslenskum læknum, eigi heima í íslensku vísindariti sem er lesið af íslenskum læknum og læknanemum.
Original language | Icelandic |
---|---|
Journal | Læknablaðið |
Publication status | Published - 1 Jun 2002 |
Other keywords
- Læknablaðið
- LBL12
- Journalism, Medical