Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Árbók Háskóla Íslands 2002, pp. 160-161

Sigurður Ingvarsson*

*Corresponding author for this work

Research output: Chapter in Book/Report/Conference proceedingChapter

Abstract

Helstu rannsóknarsviðin voru ónæmis- og sjúkdómafræði fiska, hæggengir smitsjúkdómar, þ.e. mæði-visna, riða og skyldir sjúkdómar, sníkjudýra- og sýklafræði og líftækni. Allmargir áfangar náðust sem kynntir voru á fjölmörgum ráðstefnum hérlendis og erlendis. Í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum birtust niðurstöður rannsókna á áhrifum príon-arfgerða á riðusmit, sýkingarferli mæði-visnu veiru, salmonellu í sauðfé, áhrifum lýsis á bakteríusmit, bakteríusýkingum í þorski, sykrun IgM í þorski, sníkjudýrum í fuglum, sundmannakláða og æxlisvexti. Áfram var unnið að alþjóðlegum samvinnuverkefnum sem styrkt eru af Evrópusambandinu, þ.e. á príon-sjúkdómum, riðu í sauðfé og Creutzfeldt-Jakob sjúkdómi, þróunar bóluefnis gegn alnæmi þar sem apaveiran (SIV) í rhesusöpum er notuð sem líkan og samanburðarannsóknir á þróun ónæmiskerfis nokkurra fisktegunda. Einnig fengust nýir styrkir frá ESB vegna mæði-visnu bóluefnisrannsókna og á ensímum sem taka þátt í myndun fjölketíða. Sérfræðingar sem fást við veiru- og sníkjudýrarannsóknir héldu áfram þátttöku í COST-áætlun á vegum ESB. Ennfremur styrkti Agricultural Research Service í Bandaríkjunum rannsóknir á faraldsfræði Campylobacter, m.a. notkun á sameindalíffræðilegum aðferðum til greininga. Þátttaka í samnorrænum verkefnum vegna rannsókna á sýklalyfjaónæmi og þróun aðferða við prófanir fyrir garnaveikismiti var styrkt af Nordisk Kontaktorgan for Jordbrugsforskning. Auk formlegra samvinnuverkefna eiga velflestir sérfræðingar stofnunarinnar samstarf við erlenda vísindamenn. Sem fyrr fengust sértekjur vegna útseldrar sérfræðivinnu við fisksjúkdóma, í bakteríufræði, sníkjudýrafræði, líffærameinafræði og blóðmeinafræði, auk leitar að sýklalyfjaleifum. Tilraunastöðin framleiddi m.a. bóluefni gegn lambablóðsótt, bráðapest, garnapest, lungnapest og garnaveiki, svo og mótefnablóðvökva gegn lambablóðsótt og garnapest. Einnig var safnað blóði úr hrossum, kindum og naggrísum til notkunar á rannsóknastofum og í sýklaæti. Smádýr voru ræktuð til notkunar við tilraunir, bæði fyrir Tilraunastöðina og aðrar rannsóknastofnanir. Ítarleg árskýrsla kom út vorið 2003.
Original languageIcelandic
Title of host publicationÁrbók Háskóla Íslands 2002
Pages160-161
Number of pages2
Publication statusPublished - 31 Dec 2002

Cite this