Abstract
Í lögum um réttindi sjúklinga segir að allir eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem hægt er að veita. Einnig segir í sömu lögum að óheimilt sé að mismuna sjúklingum. Hvað hefur þetta með svæfingar á landsbyggðinni að gera? Eru þar einhver vandamál sem þarf að leysa? Þessar spurningar snerta svæfingar mjög mikið. Enga bráðaskurðþjónustu ætti að bjóða nema góð svæfingaþjónusta sé fyrir hendi. Öðruvísi er ekki hægt að veita sömu fullkomnu og öruggu þjónustuna og veitt er á stóru sjúkrahúsunum. Heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni er mikið til umræðu þessa dagana enda er hún og menntunarmöguleikar barna þeir þættir sem ungt fjölskyldufólk athugar þegar það veltir fyrir sér búsetu. Þannig er heilbrigðisþjónustan og fólksflóttinn úr strjálbýlinu nátengdir þættir. Íslendingar í dag sætta sig ekki við annars flokks læknisþjónustu. Barnshafandi kona tekur ekki áhættuna á því að eiga barn þar sem ekki er hægt að grípa inn í ef vandamál koma upp. Foreldrar sætta sig ekki við að börn þeirra fari í aðgerðir nema þar sem aðstæður eru fullkomnar.
Original language | Icelandic |
---|---|
Journal | Læknablaðið |
Publication status | Published - 1 Dec 1997 |
Other keywords
- Svæfingar
- Heilbrigðisþjónusta
- Dreifbýli