Stafræn fræðsla í fyrirtækjum: Kennslumyndskeið sem hluti af fræðsluefni

Elín Yngvadóttir, Ingibjörg Emilsdóttir, Hróbjartur Árnason, Tryggvi Brian Thayer

Research output: Other contributionWorkshop presentation

Abstract

Töluverðum tíma og fjármagni er veitt í hönnun og uppsetningu kennslumyndskeiða fyrir nám og starfsþjálfun fullorðinna sem svo skila ekki þeim árangri sem til er ætlast. Efnið liggur oftast fyrir en spurningum varðandi hvernig árangursríkast sé að framkvæma miðlunina er svo kannski ósvarað. Hvernig finnst fullorðnu starfsfólki gagnlegt að nýta myndskeið þegar það bætir við sig þekkingu, eykur leikni eða vinnur með viðhorf? Hvað skiptir máli við gerð kennslumyndskeiða? Hvað getur vitsmunasálfræðin lagt af mörkum? Hvernig nýtast tími, kraftar og fjármagn sem best? Til að svara spurningunum var tilviksrannsókn notuð til að rannsaka námsefni um gerð kennslumyndskeiða. Þar sem námsefnið var tilvikið. Afurðin er stafrænt námskeið ætlað starfsfólki fræðsludeilda fyrirtækja, skóla og stofnana þar sem farið er yfir hönnun og uppsetningu kennslumyndskeiða. Byggt er á viðhorfskönnun meðal starfsfólks Isavia þar sem skoðað var hvernig starfsfólk lærir í vinnunni og hvaða aðferðir eru gagnlegar og líklegar til árangurs. Einnig er námsefnið byggt á fyrri rannsóknum og kenningum um hugsmíðahyggju, altæka hönnun náms, vitsmunasálfræði, framsetningu stafræns námsefnis og kenningum um fullorðna námsmenn. Niðurstöðurnar gefa til kynna að við gerð kennslumyndskeiða ætti að styðjast við margmiðlunarreglurnar sem unnar eru út frá hugrænu kenningunni um margmiðlunarnám. Þær eiga rætur í vitsmunasálfræði og lýsa aðferðum til að auka skilning og áhuga nemenda. Mikilvægt er að styðjast við altæka hönnun náms, lágmarka hindranir og veita fjölbreyttar leiðir til náms. Hafa þarf í huga að fullorðnir námsmenn þurfa að sjá tilgang með námi, tengja við fyrri reynslu, ráða ferðinni og nýta félagslega möguleika til ígrundunar í námi.
Original languageIcelandic
Publication statusSubmitted - 29 Sept 2023

Cite this