Abstract
Í greininni er sagt frá rannsókn á áhrifum snemmtækrar íhlutunar í lestrarnámi. Í íhlutuninni var notað stuðningskerfið Leið til læsis en það er ætlað kennurum á yngsta stigi grunnskóla til að finna þau börn sem eiga á hættu að lenda í lestrarerfiðleikum annars vegar og til að skipuleggja íhlutun og meta áhrif af henni hins vegar. Stuðningskerfið Leið til læsis samanstendur af handbók, lesskimunarprófi og eftirfylgdarprófum í lesfimi og sjónrænum orðaforða. Rannsóknin fólst í því að skima fyrir mögulegum lestrarerfiðleikum hjá börnum í 1. bekk í einum grunnskóla og veita þeim viðeigandi íhlutun í hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu og málþroska. Rannsóknin náði yfir fyrsta vetur barnanna í grunnskóla. Íhlutunartímabilin voru þrjú og stóðu þau yfir í sex vikur hvert. Áhrif voru metin með eftirfylgdarprófum í lesfimi og sjónrænum orðaforða. Framfarir barna í íhlutunarhópi voru bornar saman við framfarir þeirra barna í árganginum sem ekki voru talin þurfa sérstaka íhlutun samkvæmt niðurstöðum skimunarinnar. Heildarfjöldi barna í rannsókninni var 39. Þar af voru 14 börn í íhlutunarhópi og 25 börn í samanburðarhópi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að áhrif snemmtækrar íhlutunar með Leið til læsis séu jákvæð á heildina litið. Öll börn í íhlutunarhópi sýndu framfarir. Horft var til kenningar Stanovich um Matteusar-áhrif þar sem segir að börn sem eiga í erfiðleikum í lestrarnámi eigi á hættu að dragast aftur úr þeim börnum sem gengur vel og bilið milli þessara hópa muni því aukast með tímanum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar jókst bilið ekki á milli hópanna og náði íhlutunarhópur að halda í við framfarir samanburðarhóps.
Original language | Icelandic |
---|---|
Pages (from-to) | 1-24 |
Number of pages | 24 |
Journal | Netla |
DOIs | |
Publication status | Published - 30 Jan 2020 |