„Sjoppa ein við Laugaveginn [...] hefur fengið orð á sig sem stefnumótsstaður kynvillinga“: Orðræða um illa kynvillinga og listamenn á sjötta áratug 20. aldar

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Greinin er orðræðugreining á íslenskri fjölmiðlaumfjöllun um samkynhneigð
á sjötta áratug 20. aldar. Á þeim árum var meðvitund Íslendinga um samkynhneigð karla að færast inn í opinbera orðræðu; umfjöllunum um málefnið
fjölgaði en þær urðu jafnframt harðorðari og meira fordæmandi. Einnig var
fjallað um samkynhneigð sem hluta af íslenskum veruleika en á fyrri hluta
aldarinnar birtist samkynhneigð fyrst og fremst sem erlent eða almennt fyrirbæri á síðum blaðanna. Meðal þess sem vekur athygli er að á sjötta áratugn -
um rennur fordæmandi og harkaleg orðræða um samkynhneigð stund um
saman við svipaða umræðu um listamenn, ekki síst í skrifum Mánudags -
blaðsins. Færð eru rök fyrir því að í þeirri orðræðu birtist hinn samkynhneigði karl og iðju- og hæfileikalausi listamaðurinn sem holdgervingar hins
illa — manngerðir sem taldar voru ógna og ögra viðmiðum og gildum samfélagsins, heilbrigði og velferð Íslendinga og íslenskri þjóðarsjálfsmynd.
Orðræða þar sem listamenn og samkynhneigðir renna saman á sér langa
sögu í vestrænu samhengi en telja má ljóst að á Íslandi á sjötta áratugnum
var hún að vissu leyti viðbragð við samfélagsbreytingum. Karlmenn sem
hneigðust til annarra karla voru orðnir sýnilegri í opinberum rýmum í
Reykjavík en áður og róttækir listamenn voru að sama skapi áberandi í bæjar lífinu. Á kaffihúsinu Adlon á Laugavegi 11 mættust þessir tveir hópar sem
báðir ögruðu borgaralegum gildum og kyntu þannig undir fordómafullri
umræðu. Á Laugavegi 11 skapaðist ákveðið rými til að vera á skjön við ýmis
borgaraleg norm og þar varð til vísir að hinsegin samfélagi sem var samofið
litskrúðugum hópi róttækra og menningarlega sinnaðra einstaklinga.
Original languageIcelandic
Pages (from-to)147–183
Number of pages46
JournalSaga: tímarit Sögufélags
Publication statusPublished - 2017

Cite this