Sjónarhóll - ráðgjafarmiðstöð: Viðhorf foreldra og fagaðila til þjónustunnar

  Research output: Types of ThesisMaster's Thesis

  Abstract

  Bakgrunnur: Skortur á stuðningi er einn helsti streituvaldur foreldra fatlaðra barna. Enginn opinber þjónustuaðili á Íslandi hefur það hlutverk að tryggja fjölskyldum fatlaðra barna samstillta þjónustu. Árið 2004 stóðu fjögur hagsmunasamtök að stofnun ráðgjafarmiðstöðvarinnar Sjónarhóls til að mæta þörfum foreldra fyrir stuðning í hlutverki sínu og aðstoð við að rata um hið flókna þjónustuumhverfi.
  Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á þjónustuna sem veitt er á Sjónarhóli og gagnsemi hennar í nútíð og framtíð.
  Aðferð: Rannsóknin byggði á sniði lýsandi tilviksrannsókna en tilvikið var afmarkað við Sjónarhól sem starfseiningu og þjónustuna sem þar er veitt. Gögnum var safnað með samræðum í fimm rýnihópum. Þátttakendur voru 28 en þeir höfðu allir reynslu af þjónustunni, ýmist sem notendur, fagaðilar eða starfsmenn Sjónarhóls og stofnfélaganna. Innihaldsgreining var notuð til að greina gögnin, flokka innihald þeirra og draga fram þemu.
  Niðurstöður: Við greiningu gagnanna komu fram þrjú meginþemu: Styður börn með því að styðja foreldra, Samþættandi afl og Einn Sjónarhóll fyrir alla. Að mati þátttakenda felst þjónusta Sjónarhóls einkum í valdeflandi stuðningi við foreldra. Þjónustan var talin aðgengileg og koma helst að gagni þegar vandinn er mikill og þegar úrræði í opinbera þjónustukerfinu hafa ekki dugað til að mæta flóknum þörfum. Þátttakendur lýstu ávinningi af þjónustunni sem aukinni samvinnu milli þjónustukerfa, meiri jafnaðarstöðu foreldra og þjónustuaðila og betri nýtingu á úrræðum sem þegar eru til staðar. Niðurstöður bentu til að mikilvægt væri að halda í grunngildi í þjónustu Sjónarhóls en skerpa þyrfti á hlutverki ráðgjafarmiðstöðvarinnar út á við, bæta þjónustu við landsbyggðina og styrkja samstarf við félögin sem stóðu að stofnun Sjónarhóls.
  Ályktun: Þar sem þjónusta Sjónarhóls kemur upp til móts við brotalamir í þjónustukerfinu gegnir hún mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að tryggja opinbert rekstrarfé til að styðja við frekari vöxt og þróun starfseminnar með þeim raunhæfa möguleika að Sjónarhóll geti í framtíðinni orðið skilgreind liðstjóra þjónusta (e. key worker service).
  Original languageIcelandic
  QualificationMasters
  Awarding Institution
  • University of Akureyri
  Supervisors/Advisors
  • Svavarsdóttir, Margrét Hrönn, Supervisor
  • Pálmadóttir, Guðrún, Supervisor
  Award date1 Dec 2018
  Publication statusPublished - 2018

  Other keywords

  • Disability
  • Parents
  • Support

  Cite this