Morkinskinna I: Íslenzk fornrit XXIII

Ármann Jakobsson, Þórður Ingi Guðjónsson

Research output: Book/ReportBookpeer-review

Abstract

Morkinskinna er mikið konungasagnarit frá fyrri hluta 13. aldar og greinir frá þeim konungum sem ríktu í Noregi eftir fall Ólafs helga á Stiklarstöðum árið 1030. Ritið mun í öndverðu hafa náð fram að valdatöku Sverris Sigurðarsonar seint á 12. öld, en niðurlagið er glatað. Hér er á ferð fyrsta rit þar sem saga margra konunga er rakin ítarlega. Morkinskinna gerist einkum við norsku hirðina, og mikill áhugi er þar á hirðmenningu og hirðlífi. Konungar eru sýndir í samskiptum við þegnana, og greina má þar mikinn áhuga á konungsvaldi. Söguna má því kalla samfélagsspegil þar sem hirðlífið er skoðað í ýmsum myndum. Enn fremur ber sagan vitni miklu dálæti á framandi löndum, og drjúgur hluti hennar gerist í Austur-Evrópu og löndunum umhverfis Miðjarðarhaf. Ein höfuðprýði Morkinskinnu eru hinar mörgu frásagnir af samskiptum konunga við Íslendinga sem dveljast í Noregi, hinir svonefndu Íslendinga þættir. Flestir eru þættirnir í sögu Haralds harðráða. Sumir þáttanna eru meðal meistaraverka íslenskra bókmennta, svo sem Auðunar þáttur vestfirska, Halldórs þáttur Snorrasonar, Hreiðars þáttur heimska og Sneglu-Halla þáttur. Í Morkinskinnu eru fleiri vísur en í nokkru öðru íslensku sagnariti. Morkinskinna er hér í fyrsta sinn gerð aðgengileg íslenskum almenningi, með ítarlegum formála og skýringum. Verkið er í tveimur bindum. (Heimild: Bókatíðindi)
Original languageIcelandic
Place of PublicationReykjavík
PublisherHið íslenzka fornritafélag
ISBN (Print)9789979893974, 9789979893226, 9789979893233
Publication statusPublished - 2011

Cite this