Mín skoðun skiptir máli : þátttaka nemenda í skólaráði grunnskóla

Þorbjörg Guðjónsdóttir, Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Í grunnskólalögum 2008 var sett inn ákvæði þess efnis að nemendur skyldu eiga tvo fulltrúa í skólaráði. Markmið rannsóknarinnar sem hér er greint frá var að afla þekkingar á reynslu og viðhorfum skólastjórnenda og nemenda til skólaráðs og taka saman hagnýtar upplýsingar sem gætu nýst til að tryggja þátttöku nemenda í skólaráði. Kenningar Johns Dewey um lýðræði og reynslu og ekki síður hugmyndir hans um lýðræðislega samvinnu mynduðu ramma um rannsóknina. Vettvangsathugun fór fram í fjórum grunnskólum og opin viðtöl voru tekin við fjóra skólastjóra og sex nemendur sem áttu sæti í skólaráðum veturinn 2014–2015. Niðurstöður leiddu í ljós að skólastjórar höfðu jákvæða reynslu af starfi slíkra ráða en skiptar skoðanir voru á þátttöku nemenda. Nemendur höfðu mismunandi reynslu af setunni í skólaráði en sögðust hafa upplifað óöryggi, óvissu eða kvíða. Með aukinni reynslu jókst öryggi nemenda á fundum skólaráðs og skilningur þeirra á starfsemi skólans. Bæði skólastjórar og nemendur upplifðu stundum valdaójafnvægi á fundum skólaráðs. Stuðningur og hvatning skólastjóra og áherslur hans á gagnkvæma virðingu og lýðræðislega samvinnu voru veigamiklir þættir sem studdu virka þátttöku nemenda. Niðurstöður gefa til kynna að framkvæmd laga og reglugerðar um skólaráð fela í sér ýmsar áskoranir sem tengjast valdaójafnvægi og viðhorfum til barna. Nauðsynlegt er að skýrar reglur séu um val á nemendafulltrúum og einnig er þörf á að efla kynningu á skólaráði meðal nemenda.
Original languageIcelandic
Pages (from-to)1-19
Number of pages19
JournalNetla
Publication statusPublished - 31 Dec 2016

Cite this