Ljósmyndir Þorláks Sverrissonar í Vík: Kötlugosið 1918 í nýju ljósi

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Þorlákur Sverrisson kaupmaður í Vík í Mýrdal tók ljósmyndir af Kötlugosinu 1918 „frá byrjun til enda“ svo vitnað sé í hans eigin orð. Raunvísindastofnun fékk 18 glerplötur að gjöf frá erfingjum hans og eftirmyndir af 17 þeirra birtast hér ásamt skýringum og tilraun til tímasetninga. Ef tímaröðin, sem hér er kynnt, er nærri lagi eru myndirnar teknar frá 12. október til 2. nóvember 1918. Samkvæmt henni var fyrsta myndin tekin í Víkurþorpi 12. október, á fyrsta gosdegi og sýnir gosmökk vofa yfir húsunum. Önnur mynd frá sama degi var tekin norðan Víkur og sýnir háan gráleitan mökk yfir Höttu. Þessar tvær gætu verið fyrstu myndir í heiminum sem teknar voru af sprengigosi í jökli. Eftir fyrstu þrjá dagana sljákkaði í gosinu. Fjórar myndir sem sýna lægri gosmökk, meðal annars tvo aðgreinda gosmekki upp úr jöklinum, voru teknar á tímabilinu 15. til 20. október. Mekkirnir eru hvítir að sjá á myndunum og virðast að mestu vatnsgufa. Mynd frá 22. október sýnir dökkgráan öskumökk yfir fjöllunum norðan Víkur, rétt áður en hann fór að hrynja yfir fjallabrúnirnar og aska fór að falla í þorpinu. Mynd frá 24. október sýnir dökkan mökk yfir Höttu kolsvartri af ösku og einnig virðast upptök makkarins nú austar en áður. Öskufall hófst í Vík síðdegis þann dag og stóð í 13 klst. Fjórar myndir voru teknar 2. nóvember, síðasta daginn sem verulegur gosmökkur sást. Auk mynda af gosmekki tók Þorlákur myndir af hlaupfarvegum og ísgljúfri sem varð til þegar jökulhlaup braust fram undan/úr jaðri Kötlujökuls og braut a.m.k. 1300 m langt og allt að 300 m breitt skarð í hann. Myndir Þorláks eru þær einu sem þekktar eru af þessu gljúfri. Vísindalegt gildi myndanna er töluvert og í þeim eru meiri upplýsingar en dæmin sem tekin eru hér. Þær sýna breytileikann í sprengivirkninni og staðfesta færslu gosstöðvanna meðan á gosinu stóð. Hægt er að reikna hæð gosmakkar og miða út upptök hans. Þær sýna hlaupfarvegi á Mýrdalssandi og hægt er að meta flóðmörk meginhlaupsins á ofanverðum sandinum. Sumar myndanna hafa látið á sjá en með nútímatækni er hægt að laga þær og skerpa og nýta til fulls.
Original languageIcelandic
Pages (from-to)95-114
Number of pages20
JournalJokull
Volume2021
Issue number71
DOIs
Publication statusPublished - 8 Dec 2021

Cite this