Lifrarbólguveira C

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Nokkru eftir að greining á lifrarbólgum A og B kom til sögunnar varð ljóst að líklega væru til fleiri veirur, sem gætu valdið lifrarbólgu (1,2). Einkum var lýst lifrarbólgum eftir blóðgjafir, sem ekki voru af völdum lifrarbólguveira A eða B eða annarra þekktra veira, sem stundum valda lifrarbólgum, svo sem cytomegaloveira (CMV) og Epstein Barr veira (EBV). Voru þetta nefndar nonA, nonB lifrarbólgur. Nokkuð ljóst var að um smitefni var að ræða, og þá væntanlega veiru, sem olli að minnsta kosti mörgum nonA, nonB lifrarbólgutilfellanna. Kom sjúkdómurinn oftast eftir blóð- eða blóðhlutagjöf og hagaði sér svipað og lifrarbólga B. Einnig hefur verið lýst einstökum tilfellum af nonA, nonB lifrarbólgu ótengdum blóðgjöfum, en þær virðast vera af svipuðum toga (3). Síðan reyndist mögulegt að sýkja apa með blóði sem valdið hafði nonA, nonB lifrarbólgu hjá fólki (4,5), en ekki hefur enn tekist að rækta veiru úr nonA, nonB lifrarbólgusýkingum. Hins vegar hefur rannsóknum á þessu sviði fleygt fram undanfarin misseri með tilkomu erfðatækniaðferða. Tekist hefur að skilgreina nýja veiru, sem nefnd hefur verið lifrarbólguveira C og virðist hún vera orsakavaldur meirihluta nonA, nonB lifrarbólgna einkum þeirra sem koma eftir blóðgjafir. Auk þessa hefur faröldrum af annarri tegund nonA, nonB lifrarbólgu verið lýst, einkum í Austurlöndum, svo sem Indlandi, Pakistan og suðurhlutum Sovétríkjanna (6,7). Virðist þar vera á ferðinni veira, sem berst með vatni eða fæðu og hefur stuttan meðgöngutíma. Hefur þessi veira verið nefnd lifrarbólguveira E (8,9).
Original languageIcelandic
JournalLæknablaðið
Publication statusPublished - 1 Nov 1991

Other keywords

  • Lifrarbólga
  • Hepatitis C, Chronic
  • Hepatitis C
  • Risk Factors

Cite this