Lýðræði og menntun : hugleiðing um aldargamla bók

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Í bók sinni Lýðræði og menntun, sem út kom 1916, setur John Dewey fram
heimspekilega kenningu um hvað felst í því að menntast til þátttöku í opnu og
lýðræðislegu samfélagi. Hann rökstyður að slík menntun sé óhjákvæmilega
óvissuferð og markmið hennar komi í ljós á leiðinni: Þau séu stundarútsýn og
sífellt til endurskoðunar. Jafnframt varar hann við því að tilraunir til að skipuleggja
skólastarf sem sókn að föstum og fjarlægum markmiðum, ákvörðuðum með
valdboði að ofan, geri starf bæði kennara og nemenda að vélrænum þrældómi.
Rök Deweys byggjast á forsendum sem hann sótti einkum í þrjá staði:
Þróunarkenningu Darwins; Verkhyggjuna sem Peirce mótaði á seinni hluta nítjándu
aldar; Heildarhyggju og frelsishugsjónir Hegels. Rök hans eiga því djúpar rætur í
heimspeki og vísindum nítjándu aldar. En þau eru líka samofin hans eigin áherslum
á jöfnuð og sjálfstjórn almennings. Úr þessum efniviði, sem kann að virðast
sundurleitur, smíðaði Dewey heildstæða og víða sýn á skólastarf þar sem
vinnugleðin ræður ríkjum og nemendur eru önnum kafnir við lærdómsríka iðju.
Í þau hundrað ár sem liðin eru frá útkomu Lýðræðis og menntunar hafa hugmyndir
Deweys lifað í draumum fólks um betri skóla. Menntastefna hans hefur þó haft lítil
áhrif í raun. Þetta skýrist að nokkru leyti af því að heimspekihefðirnar sem hann tók
í arf og gerði að sínum fóru halloka þegar leið á tuttugustu öldina. Önnur skýring
sem ekki skiptir síður máli er að þeir sem réðu ferðinni í skólamálum sættu sig ekki
óvissuna og þau mannlegu takmörk sem Dewey benti á að væru óhjákvæmilega
hlutskipti okkar. Stefna hans stangaðist á við tæknihyggju sem átti vaxandi fylgi að
fagna. Hugsjón hans um skóla vinnugleðinnar mátti því víkja fyrir sjónarmiðum
þeirra sem vildu öryggi, skipulag, miðstýringu og fyrirframákveðin markmið.
Original languageIcelandic
Pages (from-to)1-20
JournalNetla
Publication statusPublished - 2016

Cite this