Abstract
Á undanförnum vikum hafa fleiri ungmenni látið lífið og örkumlast í umferðarslysum hér á landi en dæmi eru um í annan tíma. Landsmenn eru slegnir óhug við þessa atburði, leita skýringa og jafnvel sökudólga í hverju einstöku tilviki og komast oftar en ekki að þeirri niðurstöðu að slysinu hefði mátt afstýra, ef einhver hefði hagað sér á annan veg en raunin varð. Síðan heldur lífið áfram sinn vanagang, það er að segja hjá þeim sem ekki eiga um sárt að binda. Eftirköstin eru sjaldan dregin fram í dagsljósið: þjáningar syrgjenda, langar sjúkrahúslegur fórnarlamba, endurhæfing, örkuml og örorka. Sú þrautaganga er sjaldan tilefni fréttaflutnings og gleymist fljótt. Öllum ber saman um það, að þessari vargöld verði að linna. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á að gjalda vegatoll með æsku landsins. En hvað er til ráða? Sérstök átök Umferðarráðs og Dómsmálaráðuneytis virðast engum árangri skila. Hræðsluáróðurinn með illa leiknum bílhræjum við vegarkantinn hverfur í rykmekki baksýnisspegilsins. Kallað er eftir aukinni löggæslu, hertum viðurlögum við umferðarlagabrotum, öruggari umferðarmannvirkjum, hækkun lágmarksaldurs ökumanna, bættri ökukennslu. Einn bendir á annan.
Original language | Icelandic |
---|---|
Journal | Læknablaðið |
Publication status | Published - 1 Sept 2000 |
Other keywords
- Umferðarslys
- Accidents, Traffic