Abstract
Bogfrymill (toxoplasma) er fyrst og fremst dýrasýkill, en getur borist í menn og valdið bogfrymlasótt (toxoplasmosis). Ef þunguð kona smitast af bogfrymlum, geta þeir valdið fósturláti eða fóstursýkingu með alvarlegum afleiðingum fyrir þroska og heilsu fóstursins. Þeir geta einnig valdið lífshættulegum sjúkdómi hjá fólki með vissar bilanir í ónæmiskerfi. Hins vegar veldur bogfrymlasmit miklu oftar einkennalausri sýkingu en sjúkdómi hjá fólki með heilbrigt ónæmiskerfi. Í sumum löndum er reynt að fylgjast kerfisbundið með því, hvort kona verður fyrir bogfrymlasmiti á meðgöngutíma. Það er ekki gert hér á landi, en alloft er beðið um mælingar á mótefnum gegn bogfrymlum vegna fósturláts eða gruns um fóstursýkingu. Slíkar mælingar hafa ekki verið tiltækar hér á landi. Ekkert yfirlit hefur birst í tímaritum íslenskra heilbrigðisstétta um bogfrymil sem sýkingavald í mönnum, enda er bogfrymlasótt að öllum líkindum fátíð hér á landi. Hins vegar gæti tíðnin aukist við vissar breytingar á lífsháttum þjóðarinnar, svo sem aukin ferðalög til landa, þar sem smithætta er meiri en hér, nýjungar í meðferð matvæla og fjölgun alnæmissjúklinga. Er eftirfarandi yfirliti ætlað að minna á helstu atriði um þennan sýkil, lífsferil hans í náttúrunni, smitleiðir og þau sýkingaform, sem hann getur valdið í mönnum. Einnig er lýst stuttlega helstu aðferðum til greiningar á sýkingum af völdum bogfrymla og nefnd nokkur lyf, sem reynd hafa verið gegn þeim.
Original language | Icelandic |
---|---|
Journal | Læknablaðið |
Publication status | Published - 15 Sept 1988 |
Other keywords
- Bogfrymill
- Fósturskaði
- Sýkingar
- Sníklar
- Fósturlát
- Pregnancy
- Toxoplasmosis
- Toxoplasmosis, Ocular
- Parasitic Diseases
- Toxoplasma