Enska sem kennslumál við Háskóla Íslands og kennsla í akademískri ensku

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Á sama tíma og kennsla á ensku fer vaxandi við norræna háskóla hefur athygli verið vakin á þeim vandkvæðum sem fylgja því að nemendum og kennurum sé gert að læra og kenna á sérhæfðu, erlendu tungumáli sem þeim er ekki vel tamt. Í nýlegri skýrslu sem gefin var út af British Council kemur fram að merkja megi þessa þróun um allan heim. Ísland hefur ekki farið varhluta af breytingunum en lokaritgerðum sem ritaðar eru á ensku fer fjölgandi í íslenskum háskólum og sífellt fleiri námskeið á háskólastigi eru kennd á ensku. Í þessari grein er lýst viðbrögðum námsbrautar í ensku við breyttu málumhverfi í Háskóla Íslands en sífellt fleiri nemendur þurfa nú að læra á ensku án nægilegrar færni í málinu. Margir þeirra brugðu áður á það ráð að skrá sig í námskeið í enskum bókmenntum og málvísindum í von um að bæta almenna enskufærni sína. Þetta leiddi til þess að námskeiðin urðu of fjölmenn og erfitt reyndist að mæta mismunandi þörfum og markmiðum nemenda. Kennaraskipti urðu einnig tíð og framfarir nemenda ófullnægjandi, sérstaklega í ritun. Til að bregðast við þessu var sett á fót ný námsleið í akademískri ensku og námskeiðum í enskri ritun gerbreytt. Úr varð ný nálgun sem lýst er í bókinni The Art and Architecture of Academic Writing. Í greininni er nálguninni lýst og síðan kynntar niðurstöður
rannsókna á áhrifum hennar á nám nemenda. Þar kemur fram að nemendur töldu sig almennt verða betri í enskri ritun, átta sig betur á uppbyggingu texta sem stýrt er af tilgátu og hafa betri skilning á uppbyggingu akademískra texta. Þá er í greininni kynnt ný rannsókn á mælanlegum breytingum milli texta sömu nemenda í upphafi og við lok námskeiðsins en hún sýnir að framfarir urðu ekki eingöngu í hugum nemenda heldur mældust þær líka í textum sem þeir skrifuðu við upphaf og lok námskeiðs.
Original languageIcelandic
Number of pages20
JournalMilli mála
Volume12
Issue number2020
Publication statusPublished - 2020

Cite this