Childhood sexual abuse: Consequence and holistic intervention

Research output: Types of ThesisPh.D. Thesis

Abstract

Bakgrunnur: Kynferðislegt ofbeldi í bernsku (e. Childhood Sexual Abuse,
CSA) getur haft alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir heilsufar og líðan karla
og kvenna. Mikilvægt er að byggja á dýpri þekkingu á reynslu þolenda á
Íslandi af þessum víðtæku afleiðingum við þróun heildræns meðferðarúrræðis
fyrir þolendur CSA innan heilbrigðiskerfisins.
Markmið: Að auka þekkingu og dýpka skilning á afleiðingum CSA hjá
þolendum af báðum kynjum í því skyni að auka hæfni hjúkrunarfræðinga og
annarra heilbrigðisstétta í að veita viðeigandi umönnun. Að þróa og skoða
reynslu íslenskra kvenna af heildrænu meðferðarúrræði og reynslu af
heilbrigðiskerfinu.
Aðferð: Notuð var fyrirbærafræðileg rannsóknaraðferð til að auka þekkingu
og dýpka skilning á afleiðingum CSA. Í rannsókn I voru þátttakendur sjö
íslenskir karlar með sögu um CSA. Tekin voru tvö viðtöl við hvern þeirra,
samtals 14 viðtöl. Í rannsókn II var borin saman reynsla þessara sjö karla og
sjö íslenskra kvenna (frá annarri rannsókn höfundar). Fjöldi viðtala sem notuð
voru í greiningunni var samtals 28. Í rannsókn III voru tekin sjö viðtöl við eina
íslenska konu með langa áfallasögu af reynslu hennar af líkamlegum
afleiðingum CSA og reynslu hennar af heilbrigðisþjónustunni. Í rannsókn IV
voru tekin viðtöl við 10 íslenskar konur sem tóku þátt í Gæfusporunum,
heildrænum meðferðarúrræðum. Tekin voru þrjú viðtöl við hverja konu,
samtals 30 viðtöl. Samtals voru því 65 einstaklingsviðtöl lögð til grundvallar í
greiningarvinnunni í doktorsverkefninu.
Niðurstöður: Helstu niðurstöður rannsóknanna voru að afleiðingar CSA,
bæði fyrir íslenska karla og konur, voru alvarlegar fyrir heilsufar og líðan.
Þátttakendur töldu að þeir hefðu ekki fengið nægjanlegan stuðning eða
skilning frá heilbrigðisstarfsfólki, en þátttaka í Gæfusporunum virtist bæta
heilsu og líðan þeirra sem tóku þátt í þeim.
Í rannsókn I upplifðu karlarnir sjálfsmynd sína brotna. Í æsku áttu þeir við
námsörðugleika að stríða og urðu fyrir einelti. Þeir voru ofvirkir og leiddust út í
afbrot, áfengis- og fíkniefnaneyslu, auk þess að vera með ýmis flókin
heilsufarsleg vandamál. Upplifun karlanna einkenndist af reiði, hræðslu og
líkamlegri og sálrænni aftengingu. Þeir áttu erfitt með að tengjast mökum og
börnum, höfðu gengið í gegnum hjónaskilnaði og voru allir forsjárlausir feður.
8
Þeir lifðu í þögulli og kvalafullri þjáningu vegna eigin fordóma og
samfélagsins og leituðu því ekki hjálpar eða sögðu frá fyrr en á
fullorðinsárum.
Í rannsókn II, samanburðarrannsókninni, mátti greina mun á milli karla og
kvenna. Konurnar höfðu meiri tilhneigingu til að beina tilfinningalegum
sársauka sínum inn á við, sem kom síðar fram í flóknum andlegum og
líkamlegum heilsufarsvandamálum. Karlarnir höfðu hins vegar meiri
tilhneigingu til að beina tilfinningalegum sársauka sínum út á við, sem kom
einkum fram í hegðunarvandamálum og andfélagslegri hegðun.
Í rannsókn III sýndu niðurstöður að CSA og löng áfallasaga getur haft
alvarleg og niðurbrjótandi áhrif á heilsufar. Þátttakandinn hafði haft mörg
líkamleg vandamál eins og langvinna verki, vefjagigt, síendurtekin
móðurlífsvandamál og krabbamein. Hún hafði einkenni áfallastreituröskunar
og hafði ekki mætt nægilegum skilningi og stuðningi í heilbrigðiskerfinu.
Í rannsókn IV kom fram að konurnar sem tóku þátt í Gæfusporunum voru í
upphafi meðferðarinnar félagslega einangraðar og áttu við mjög flókin
heilsufarsleg vandamál að stríða. Þær upplifðu sig með brotna sjálfsmynd,
treystu sér ekki í vinnu eða nám og töldu það hafa haft veruleg áhrif á
fjölskyldur þeirra og lífsgæði. Jákvæðan árangur mátti sjá varðandi alla þessa
þætti hjá konunum 12-15 mánuðum eftir að meðferðinni lauk. Starfsgeta
þeirra allra hafði aukist eftir Gæfusporin, þær voru komnar í launaða vinnu,
nám eða áframhaldandi starfsendurhæfingu.
Ályktanir: Kynferðislegt ofbeldi í bernsku getur haft alvarlegar og víðtækar
langtímaafleiðingar fyrir heilsufar og líðan, bæði íslenskra karla og kvenna,
og þjáning beggja kynja getur verið djúp. Mikilvægt er fyrir
heilbrigðisstarfsfólk að þekkja einkenni og afleiðingar CSA til að vera betur í
stakk búið að veita stuðning og viðeigandi meðferð sem tekur mið af
einstaklingnum og kyni hans. Mikilvægt er að halda áfram að þróa heildræn
meðferðarúrræði fyrir konur á Íslandi og þróa slík meðferðarúrræði fyrir karla
sem hafa orðið fyrir CSA. Með því að byggja einstakling markvisst upp eftir
áföll vegna CSA getur margt áunnist fyrir hann, fjölskyldu hans og samfélagið
í heild.
Original languageEnglish
QualificationDoctor
Awarding Institution
  • University of Iceland
Supervisors/Advisors
  • Halldórsdóttir, Sigríður, Supervisor
  • Bender, Sóley Sesselja, Supervisor
Award date7 Jun 2017
Place of PublicationReykjavík
Publisher
Publication statusPublished - 7 Jun 2017

Other keywords

  • Childhood sexual abuse

Cite this