Abstract
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvaða hindranir mæta fullorðnu fólki sem hefur hug á að ljúka námi á framhaldsskólastigi. Tekin voru viðtöl við átta einstaklinga á aldrinum 25–30 ára sem stunda nám á vegum framhaldsfræðslunnar og eru í aðfaranámi. Í frásögnum þeirra vógu aðstæðu- og stofnanabundnar hindranir mun þyngra en viðhorfsbundnar hindranir. Helsta hindrun nemendanna var fjármögnun námsins þar sem unga fólkið býr við þröngan fjárhag og er með fjölskyldu á framfæri. Flókið reyndist að samþætta fjölskyldulíf og vinnu með námi og það skapaði mikið álag í lífi þess. Einnig kom fram að upplýsingar um nám og fjárstuðning í boði eru oft óljósar og viðmælendur töldu að framboð og skipulag náms kæmi ekki nægjanlega til móts við þarfir þeirra fyrir stuðning og sveigjanleika. Þátttakendur sýndu frumkvæði og þrautseigju við að yfirstíga margvíslegar hindranir sem þeir mættu á menntaveginum. Hvatinn að rannsókninni er ekki síst sá að stjórnvöld hafa sett markmið um hærra menntunarstig þjóðarinnar en afar hægt gengur að ná þeim markmiðum. Rannsóknin getur því nýst stjórnvöldum við stefnumótun og menntastofnunum og aðilum fullorðinsfræðslu við að fækka stofnana- og aðstæðubundnum hindrunum á vegi fullorðinna námsmanna.
Original language | Icelandic |
---|---|
Pages (from-to) | 65-86 |
Journal | Tímarit um uppeldi og menntun |
Volume | 26 |
Issue number | 1-2 |
DOIs | |
Publication status | Published - 2017 |