Þjóðfélagslegur kostnaður vegna offitu: SKÝRSLA UNNIN FYRIR HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ

Research output: Book/ReportCommissioned report

Abstract

Offita er ört vaxandi heilbrigðisvandamál, einkum í hinum vestræna heimi og er Ísland þar
engin undantekning. Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er engin
lýðheilsuógn jafn vanmetin um víða veröld og offitan þar sem talað er um heimsfaraldur sem
undanskilji hvorki fátæk þróunarríki né vestræn iðnríki. Kostnaður íslensks samfélags vegna
ofþyngdar og offitu árið 2007 er metinn 5,8 milljarðar króna samkvæmt þeim útreikningum
sem skýrsluhöfundar nota. Kostnaðurinn skiptist annars vegar í beinan meðferðarkostnað
vegna offitunnar sjálfrar og hins vegar í beinan og óbeinan kostnað vegna fylgikvilla offitu.
Beinn meðferðarkostnaður er aðeins lítill hluti af heildinni eða um 175 milljónir króna, en
tæpa 5,7 milljarða króna má rekja til meðhöndlunar fylgikvilla og til beins framleiðslutaps.
Með markvissum forvörnum má lækka þennan kostnað samfélagsins mikið.
Út frá dreifingu mannfjöldans eftir líkamsþyngdarstuðlum (BMI) sem
Lýðheilsustofnun hefur tekið saman má áætla að hækki BMI að jafnaði um eitt stig þá hækki
hlutfall karla með BMI yfir 25 úr 66,6% í 75,1% og hlutfall kvenna með BMI yfir 25 fari úr
53,5% í 63,0%. Við þetta eykst samfélagslegur kostnaður um rúman einn milljarð, fer úr
5.837 milljónum í 6.890 milljónir. Verði breytingin aftur á móti í hina áttina, þ.e. að
líkamsþyngdarstuðull lækki um eitt stig fer samfélagslegur kostnaður úr 5.873 niður í rúma
4,8 milljarða. Af þessu er ljóst að um verulega fjármuni er að ræða og mikinn ávinning í formi
aukinnar velferðar í samfélaginu ef hægt er að snúa þessari þróun við.
Árið 2007 voru um 87.778 fullorðinna á aldrinum 18-79 ára of þungir hér á landi og
um 43.860 voru of feitir. Þetta jafngildir því að rúmlega 60% Íslendinga eru yfir kjörþyngd.
Ef marka má spá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þá mun þetta hlutfall aukast á
komandi árum og árið 2010 má ætla að um 60,7% mannfjöldans verði yfir kjörþyngd.
6
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur haft frumkvæði að því að
þjóðfélagslegur kostnaður offitu er í fyrsta sinn skoðaður hér á landi og er það fagnaðarefni
fyrir þá sem vinna við og hafa áhuga á rannsóknum á offitu. Í heilbrigðisáætlun sem lögð var
fram af ráðuneytinu árið 2001; Heilbrigðisáætlun til ársins 2010: Langtímamarkmið í
heilbrigðismálum er lítið sem ekkert minnst á offitu og vandamál tengd þyngdaraukningu hér
á landi. Svo virðist sem Íslendingar hafi þyngst mjög ört á þeim sjö árum sem liðin eru frá
því að þessi heilbrigðisáætlun leit dagsins ljós.
Í Stöðu og endurskoðun meginmarkmiða heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 frá árinu
2007 hefur offitu verið bætt inn í kaflann um börn og ungmenni sem eitt af sjö
forgangsverkefnum heilbrigðisáætlunarinnar. Markmiðið er að lækka hlutfall 9 ára barna, sem
eru yfir kjörþyngd, niður fyrir 15% og þeirra sem eru of feit, niður fyrir 3%. Einnig var bætt
við, undir kaflanum „hjarta- og heilavernd“ í sömu heilbrigðisáætlun, að dregið yrði úr
frekari aukningu á hlutfalli fólks 20 ára og eldra sem er yfir kjörþyngd eða of feitt. Miðað er
við að hlutfall þeirra sem eru yfir kjörþyngd og of feitir verði ekki hærra en það var árið 2002
en þá töldust 56% fólks 20 ára og eldra vera yfir kjörþyngd og 16% of feitir.
Mikilvægt er að fylgjast vel með breytingum á holdafari með því að safna gögnum á
kerfisbundinn hátt með reglulegu millibili en nokkuð hefur skort á það hér á landi.
Hjartavernd hefur safnað gögnum allt frá árinu 1967 fyrir tiltekna aldurshópa á
höfuðborgarsvæðinu þar sem einstaklingar eru vigtaðir og hæðarmældir. Slíkar mælingar
veita mun áreiðanlegri upplýsingar en spurningar um hæð og þyngd í spurningakönnunum
en eru að sama skapi kostnaðarsamari. Ýmsar innlendar rannsóknir eru til þar sem
einstaklingarnir sjálfir gefa upp hæð og þyngd. Rannsóknir hafa sýnt að þeim sem eru of
þungir, og þá sérstaklega konum, hættir til að draga úr þyngd sinni. Að sama skapi hafa
einstaklingar tilhneigingu til að ýkja hæð sína en hvort tveggja lækkar útreiknaðan
líkamsþyngdarstuðul. Það er nauðsynlegt að hefjast handa við að auka vitund fólks um
óæskileg áhrif offitu og mikilvægi þess að grípa inn í til þess að stemma stigu við sívaxandi
kostnaði vegna sjúkdóma sem tengjast offitu.
Lagt er til að heilbrigðisráðuneytið leiti leiða til þess að virkja einstaklinga, skóla,
félagasamtök, íþróttafélög, fyrirtæki og stofnanir auk fjölda annarra aðila sem geta lagt sín lóð
á vogarskálar til þess að stemma stigu við þeirri þróun sem á sér stað í þessum málum á
Íslandi í dag.
Þessi skýrsla er unnin af sérfræðingum Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Bifröst og
var skýrslan unnin að mestu á fjórum vikum að beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Háskólinn á
Bifröst mun í kjölfarið á þessari úttekt auka enn frekar rannsóknir á þessu sviði.
Original languageIcelandic
Place of PublicationBifröst
Number of pages70
Publication statusPublished - 2008

Cite this