Á jaðri jaðarsins í framhaldsskóla fyrir alla : starfsbraut - sérnám innan Tækniskólans

Research output: Contribution to journalArticlepeer-review

Abstract

Starfsbraut – sérnám er ætlað fötluðum nemendum sem eiga ekki kost á að stunda nám á starfsbrautum framhaldsskólanna vegna námsvanda og krefjandi hegðunar. Í greininni er sjónum beint að tilurð, námskrá og stofnanalegu skipulagi námsins í samhengi við annað nám fyrir nemendur með þroskahömlun og hins vegar reynslu stefnumótunar- og fagaðila af starfi sínu við það. Rannsóknin er eigindleg tilviksrannsókn þar sem nýttar eru kenningar Goffman um frávik og stimplun, Foucault um þekkingu og völd og svo þrepalíkan Deno um stigvaxandi aðgreiningu innan menntastofnana. Gagnaöflun fólst í skjalagreiningu og eigindlegum viðtölum sem tekin voru 2015–2016. Viðmælendur voru sex talsins; fjórir fagaðilar sem vinna í sérnáminu og tveir stjórnendur, þ.e. fagstjóri sérdeilda Tækniskólans og sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Niðurstöður gefa til kynna samhljóm meðal viðmælenda um réttmæti og mikilvægi sérnámsins. Stjórnendur og fagfólk telja nemendum þess betur borgið í einstaklingsmiðuðu og aðgreindu menntaúrræði frá starfsbrautum framhaldsskóla fyrir nemendur með þroskahömlun þótt því fylgi frekari jaðarsetning og brennimerking. Það veldur fagfólki togstreitu að starfið sé í raun í mótsögn við hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar. Einangrun nemenda sérnámsins ýtir jafnframt undir aðgreiningu fagfólksins frá öðrum kennurum skólans. Þeir upplifa skort á faglegum stuðningi, aðhaldi og hvatningu sem getur leitt til faglegrar einsemdar og aukið hættu á kulnun. Fagfólkið kallar eftir skýrari námsmarkmiðum og auknum möguleikum á faglegu samstarfi um málefni og kennslu nemenda.
Original languageIcelandic
Pages (from-to)1-23
JournalNetla
Publication statusPublished - 2016

Cite this