Tungumál og þekking – íslenska sem annað tungumál

Press/Media

Description

Grein í Fréttablaðinu 30. október 2020

Subject

Síðustu áratugi hafa rannsóknir aukið verulega þekkingu okkar á þróun málþroska barna. Endurteknar rannsóknir hafa gefið niðurstöður sem hafa sterkan samhljóm. Þekking á þessu sviði er orðin traust og mikilvægt er að styðjast við hana þegar kennsluhættir eru þróaðir.

Málþroski og þátttaka í viðfangsefnum skólans eru samofin. Þegar nemendur auka þekkingu sína t.d. í stærðfræði og náttúruvísindum eflist færni þeirra í tungumálinu jafnóðum.

Tökum sem dæmi jarðskjálfta, börn verða forvitin: Hvað er þetta, af hverju gerist þetta og er þetta hættulegt? Mikilvægt er kennarar nýti sér forvitnina og áhugann. Þeir miðla þekkingu til barnanna á þann hátt að þau skilji og ræða málin. Börnin spyrja og kennarar svara, innihaldsrík samtöl eiga sér stað. Börnin læra orð sem tengjast jarðskjálftum, jarðskjálftavirkni og eftirskjálftar, og orð sem nauðsynlegt er að nota þegar kafað er djúpt í umfjöllunarefnið, orsakir og framvinda. Umræður ná til fortíðar og framtíðar, sem kallar á flóknari notkun tungumálsins, málfræði og setningamyndun. Hæfni til að nota tungumál á þennan hátt kallast grundvallarfærni í námstengdu tungumáli (e. core academic language skills). Komið hefur í ljós að börn sem fá svo ríkulega fræðslu og samhliða málörvun byggja sterkan grunn fyrir nám um alla framtíð.

Börn í íslensku skólakerfi sem nota ekki íslensku með fjölskyldu sinni þurfa að fá tækifæri til að fást við umfjöllun af þessu tagi í skólanum, á íslensku. Íslenskan er þeirra annað tungumál sem þau efla samhliða sívaxandi þekkingu. Markmið kennsluhátta eru að börnin geti tekið virkan þátt í skólastarfi í leik- og grunnskóla. Virk þátttaka í skólastarfi er jafnframt leið til að efla íslenskuna.

Börn eru á mismunandi aldri þegar þau byrja að læra íslensku sem annað tungumál.

Börn sem eru fædd hér eða koma ung til landsins hafa alla möguleika til að þróa færni í íslensku jafnt og þétt í skólastarfi. Fyrstu ár ævinnar eru þau á máltökuskeiði og þegar þau byrja í leikskóla er grundvallaratriði að þau myndi náin tengsl við starfsfólk skólans. Þau læra íslensku best í gegnum gagnkvæm tjáskipti í öruggum aðstæðum þar sem þau þora að spyrja spurninga og tjá sig. Með nnihaldsríkum samræðum á íslensku er lagður grunnur að farsælli námsframvindu þeirra í íslenskum skólum. Allt snýst þetta um í hvaða mæli börnin fá tækifæri til að nota íslensku í gegnum viðfangsefni námsins.

Þegar börn flytja til Íslands þegar þau eru eldri koma þau með þekkingu í móðurmálinu og ýmsum námsgreinum, þó í mismiklum mæli, allt eftir aldri og því hve innihaldsríkt málumhverfi þeirra hefur verið. Þá er nauðsynlegt að mæta þeim þar sem þau eru stödd. Þau þurfa að sækja þekkingu sem þau öðluðust í gegnum móðurmálið og tengja við íslensku. Á meðan þau eru að ná tökum á íslenskunni er mikilvægt að líta til styrkleika þeirra og leyfa þeim að njóta sín, en einblína ekki eingöngu á litla íslenskufærni. Námsgleði næst þó fyrst og fremst með því að þau taki reglulegum framförum í íslensku og verði virk í námsamfélagi með jafnöldrum.

Markmið með stuðningi og kennsluháttum með nemendum sem eiga íslensku sem annað tungumál er að þau verði virkir námsmenn, auki þekkingu sína og íslenskufærni stöðugt þannig að þau geti nýtt sér námstækifæri sem bjóðast í íslensku skólakerfi.

Period30 Oct 2020

Media contributions

1

Media contributions

 • TitleFréttablaðið
  Degree of recognitionNational
  Media name/outletFréttablaðið
  Media typeWeb
  Country/TerritoryIceland
  Date30/10/20
  PersonsSigríður Ólafsdóttir