Description
Frá unga aldri erum við þjálfuð í að taka eftir smáatriðum. Hér má nefna bækur eins og „Hvar er Valli“ þar sem lesendur rýna í myndefni til að finna Valla sem er aðeins agnarsmár hluti af myndinni. Í barnaleikritinu vinsæla Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjørn Egner kemur upp misskilningur varðandi smáatriði í uppskrift þar sem ein lítil teskeið af pipar verður að heilu kílói. Smáatriði spila einnig stóra rullu í þjóðsögum, ævintýrum og leiknu efni þar sem ráðagóða söguhetjan tekur eftir smáatriðum sem hafa mikilsverð áhrif á söguframvinduna.
Þá skipta smáatriði miklu máli þegar kemur að útgáfu bóka en þar er sérstaklega bagalegt að hafa stafsetningarvillur á kápu þar sem mikill tími og kostnaður getur farið í að laga mistökin. Dæmi eru jafnvel um að heilu bókabrettunum hafi verið hent vegna smáatriða sem sýnir að þau geta haft afdrifaríkar afleiðingar.
Aldamótavandinn svokallaði er dæmi um vandamál sem setti allt á hliðina vegna talnavandræða sem óttast var að kæmu upp. Þá skipta punktar og kommur máli þegar kemur að ýmiskonar útreikningum, bæði hjá bönkum og stofnunum; og eins skipta smáatriði máli í hugbúnaði.
Vonir voru bundnar við að gervigreind og ofurtölvur myndu leysa erfiða útreikninga en sérfræðingar hjá NASA og MIT sögðu á nýsköpunarráðstefnu í fyrra að þeir óttuðust að það myndi taka mörg ár að sannreyna þessa útreikninga. Gervigreindin nær enn sem komið er ekki að eiga við smáatriði á borð við að sýna eðlilega fingur á myndum og á það til að ruglast þegar beðið er um lógó með skammstöfun og ártali.
Smáatriði í tölvuleikjum, sérstaklega hlutverkaleikjum, skipta máli fyrir söguframvinduna og hafa áhrif á hvernig leikurinn endar. Önnur smáatriði sem leikjaspilarar eyða miklum tíma í er að stílisera sögupersónurnar, þar sem hár og útlit eru lagfærð eftir smekk spilarans. Jafnvel þó útlitið sé falið með hjálmi eða sjáist örsjaldan í leiknum. Sá sem er að spila leikinn tengist sögupersónunni betur og veit af þessum smáatriðum sem gerir spilunina ánægjulegri.
Orðtökin „Að gera úlfalda úr mýflugu“, „skilja kjarnann frá hisminu“ og „sjá ekki skóginn fyrir trjám“ tengjast smáatriðum og heildarmynd. Forskeytið „smá“ gefur til kynna eitthvað sem er smátt í sniðum, smábarn, smákaka eða smástund en smáatriði eru sjaldnast smá í sniðum. Þau sem huga að hverju smáatriði eru annað hvort lofuð eða löstuð og er afstaða annarra gagnvart „smáatriðinu“ það sem skiptir máli þegar kemur að viðtökum.
Á enskri tungu er talað um að „djöfullinn búi í smáatriðunum“ og til þessa orðtaks er gjarnan gripið þegar rætt er um ágreining í kjaraviðræðum og stjórnarmyndunum en einnig þegar kemur að daglega lífinu. Smáatriði gegnsýra líf okkar og mynda heildarsamhengi í nokkurskonar krosssaum hins daglega lífs. Við þurfum að taka margar ákvarðanir í einkalífinu og vinnu – og oftar en ekki eru það smáatriðin sem valda okkur mestu hugarangri.
Vinnufélagi minn sagði mér sögu úr bernsku nýverið og nefndi rautt hús sem hafði verið nálægt æskuslóðunum. Þetta hús tengdist atviki sem hræddi hann og varð til þess að systir hans hóf að kanna hvort rauða húsið hefði verið raunverulegt. Í ljós kom að samkvæmt heimildum hafði þetta hús vissulega verið til, það hafði verið rautt og staðið þar sem hann, þá fjögurra ára gamall drengur, mundi en systkini hans ekki.
Þau sem eru með með gott minni muna minnstu smáatriði langt aftur í tímann og fá iðulega spurningar eins og „af hverju manstu þetta?“, „sástu þetta ekki bara á myndum?“ eða „þig hlýtur að hafa verið að dreyma“ og þurfa oft að sanna smáatriði minninganna.
Þegar ég var í barnaskóla var ætlast til þess að allar stelpur væru í sömu gallabuxunum, Levi‘s 501, en það var ekki nóg, þær þurftu að vera í stærðinni 29/31. Skólasystur fylgdust vel með og lásu á merkimiðann en markmiðið var að allir pössuðu inn í sama skapalónið. Lítið fór fyrir frumleika og hvað þá að setja punktinn yfir i-ið með einhverju sem var ekki meginstraums. Ég hugsa enn um þetta þegar ég kaupi gallabuxur. Þetta smáatriði er greypt í huga mér og hefur áhrif á fatastílinn en það er alls ekki víst að skólasysturnar muni eftir þessu.
Svo eru það óheppileg smáatriði daglegs lífs en spurningin „Hvað eigum við að hafa í matinn?“ virðist setja parasambönd og heimilislíf þeirra í uppnám daglega. Annað smáatriði sem fer gjarnan í taugarnar á fólki er að þurfa að kaupa salernispappír en nemandi minn kallaði það nauðsynjaverk það versta og „óglamúrlegasta“ við það að vera fullorðinn.
Smáatriðin má finna alls staðar en þau verða stundum helst til stór í sniðum og hafa óþarflega mikil áhrif.
Period | 3 Jan 2025 |
---|
Media contributions
1Media contributions
Title Smáatriði Degree of recognition National Media name/outlet RÁS 1 Media type Radio Country/Territory Iceland Date 3/01/25 Description - sem eru stór í sniðum URL https://www.ruv.is/utvarp/spila/uppastand/33185/9sf8qd Persons Eyrún Lóa Eiríksdóttir