Media contributions
1Media contributions
Title Nýtt safn á gömlum grunni Media name/outlet Morgunblaðið Media type Print Country/Territory Iceland Date 5/03/04 Description Baldvin Zarioh fæddist á Akureyri 14. febrúar 1976. Stúdent frá MA 1996. Lauk BA-prófi í bókasafns- og upplýsingafræðum frá Háskóla Íslands árið 2001 og vinnur nú sem verkefnisstjóri á rannsóknasviði Háskóla Íslands. Maki er Saliha Lirache. Á einn son frá fyrra sambandi, Jakob Z.S. Baldvinsson.
Rannsóknagagnasafn Íslands (RIS) var enduropnað formlega 10. febrúar sl. af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra eftir miklar endurbætur og breytingar. Morgunblaðið ræddi við Baldvin Zarioh verkefnisstjóra í tilefni þessa.
-Segðu okkur frá aðdragandanum...
"Upphaflega var Rannsóknagagnasafn Íslands opnað 5. febrúar 1998 af Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra, en gagnasafnið hefur legið niðri í nokkurn tíma meðan á endurbótum hefur staðið. Í raun má segja að nú sé verið að opna nýtt gagnasafn á gömlum grunni og er hann nær óþekkjanlegur frá því formi sem hann var á áður. Endurbæturnar voru unnar af Reiknistofnun Háskóla Íslands og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir."
-Hver er tilgangurinn með smíði þessa gagnabanka?
"Hlutverk gagnasafnsins er að safna grunnupplýsingum um rannsóknarverkefni sem unnin eru á Íslandi og/eða unnin eru af Íslendingum og gera þær aðgengilegar á Netinu, en áherslan er lögð á að skrá verkefni sem styrkt eru af íslenskum rannsóknasjóðum eða eru unnin á rannsóknastofnunum hérlendis. Þannig er það hlutverk gagnasafnsins að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um öll íslensk rannsóknaverkefni, í víðum skilningi,. Eins og sjá má er hlutverk þess mjög metnaðarfullt og vonast er til þess að með tíð og tíma verði gagnasafnið eins konar þverskurður af þeirri fjölbreyttu rannsóknastarfsemi sem fram fer í landinu. Í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á að safna saman upplýsingum um rannsóknaverkefni og flestöll þau ríki sem við viljum bera okkur saman við reka viðlíka gagnasafn. Þá má einnig nefna að Evrópusambandið hefur víðtækt samstarf um skráningu upplýsinga um rannsóknaverkefni sem RIS hefur átt þátt í. RIS er að stofni til byggt á stöðlum frá Evrópuverkefninu."
-Hver var tilurð þessa gagnasafns ... og segðu okkur hvernig safnað hefur verið efni í það, hvað verður þar í framtíðinni og hversu umfangsmikill er það svona í byrjun?
"Gagnasafnið er afrakstur samstarfs Rannsóknaráðs Íslands, nú Rannsóknamiðstöð Íslands, Háskóla Íslands og Iðntæknistofnunar og má rekja upphaf þess samstarfs allt til ársins 1996 þegar ákveðið var að hefja undirbúningsvinnu við gagnasafnið. Allt frá árinu 1998 hefur efni verið safnað í grunninn og nú er upplýsingar um rúmlega 2.000 verkefni að finna í gagnasafninu. Gert var í átak í skráningu þegar RIS var opnað árið 1998 en frá þeim tíma hafa um það bil 200 verkefni verið skráð árlega. Í raun getur hver sem er skráð verkefni í safnið í gegnum viðmót á vef gagnasafnins, en öll skráning er háð því að umsjónaraðilar RIS telji verkefnið eiga heima í gagnasafninu og samþykki það inn í grunninn. Þó gert sé ráð fyrir því að vísindamennirnir sjálfir skrái upplýsingar um verkefni sín í grunninn er það svo að flest verkefnin eru skráð miðlægt hjá þeim þremur stofnunum sem standa að RIS. Rannís, Háskóli Íslands og Iðntæknistofnun eru leiðandi í starfsemi og þróun gagnasafnsins en unnið er að því að mynda tengsl við allar stærri stofnanir á Íslandi og freista þess að gera gagnasafnið þannig að enn betri heimild um rannsóknastarfsemi á Íslandi."
-Hvernig verður með aðgang ... og hverjum mun hann nýtast best?
"Aðgangur að RIS er ókeypis og getur í raun hver sem er skráð verkefni og leitað í grunninum. Notagildið getur verið margvíslegt. Gagnasafnið nýtist vel til að kanna stöðu þekkingar á ákveðnum sviðum hér á landi og til þess að leita sér heimilda um ákveðin viðfangsefni. Gagnasafnið nýtist sérstaklega vel til þess að finna heimildir um séríslensk fyrirbæri eins og um íslenska menningu og íslenska jarðfræði. Einnig er hægt að ímynda sér að vísindamenn noti grunninn til þess að leita að samstarfsaðila, en eins og gefur að skilja, þá er RIS mikilvæg heimild um þá sérfræðiþekkingu sem finna má hér á landi. Þá geta stofnanir notað RIS sem nokkurs konar verkefnabókhald og haldið þannig utan um þau verkefni sem unnið er að á stofnunum og hefur verið unnið að í gegnum tíðina."
-Hvaða upplýsingar eru skráðar og verður safnið bara á íslensku?
"Ýmsar upplýsingar um verkefnin eru skráð, t.d. nafn verkefna, útdrættir, lykilorð, upplýsingar um verkefnastjóra og upplýsingar um stofnanir sem standa að verkefnum. Auðvelt er að leita að verkefnum í gegnum nýja og endurbætta leitarsíðu. Hægt er að gera einfalda leit í öllum sviðum, eða takmarka leit við útdrætti, lykilorð eða önnur svið. Hægt er að skrá verkefni bæði á íslensku og ensku, þó megináherslan hafi í gegnum tíðina verið að skrá upplýsingar á íslensku. Veffang gagnasafnins er http://www.ris.is og hvetjum við alla til þess að fara inn á vefinn og skoða hvað þar er að finna."URL https://www.mbl.is/greinasafn/grein/784846/?item_num=12&searchid=61bb44f9d12603164c5b45d288156f0d296c37cf Persons Baldvin M. Zarioh