Description
Eyrún Lóa Eiríksdóttir, doktorsnemi og sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, rýnir í hina vinsælu Netflix þætti Wednesday.
Addams fjölskylduna þarf vart að kynna en hún hefur notið vinsælda í rúmlega áttatíu ár og öðlast sess í dægurmenningunni. Fjölskyldan hefur skemmt áhorfendum með grótesku sérvitringsháttalagi í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Rætur hennar liggja í myndasögunni, listformi sem hefur löngum endurspeglað samfélagið sem hún sprettur upp úr. Fjölskyldan er tímalaus þar sem hún hafnar nútímatæknivæðingu og er alltaf söm við sig þó söguhetjurnar þroskist og eldist.
Í nýjum sjónvarpsþáttum Wednesday sem voru frumsýndir á Neflix á miðvikudegi seint í nóvember er kastljósinu nú beint að dótturinni Wednesday fremur en fjölskyldunni sem slíkri og er tónninn strax sleginn með því að hverfa frá hinu kunnuglega upphafsstefi Addams fjölskyldunnar (sem íslensk leiksskólabörn syngja iðulega með texta um ofsaglaðan apa étandi banana). Eftir fyrstu viku í sýningu bárust fregnir af því að þættirnir eru í fyrsta sæti yfir mest streymdu enskumælandi þætti frá upphafi og skákuðu þeir þar með hinum geysivinsælu Stranger Things. Wednesday þættirnir eru auk þess í fyrsta sæti á topp tíu vinsældalistanum á Íslandi.
Addams fjölskyldan er hugarsmíð Charles Addams sem hóf að gera myndasögur á fjórða áratug síðustu aldar og byggði þær að einhverju leyti á lífi sínu og áhugamálum. Wednesday þættirnir eru aftur verk meistara Tims Burtons sem vandar mjög til verka og er fagurfræði hans allsráðandi. Það má finna ákveðinn enduróm af fyrri verkum um Addams fjölskylduna og fá aðdáendur því nokkuð fyrir sinn snúð. Christina Ricci leikur veigamikið hlutverk í þáttunum en hún er hvað helst þekkt fyrir hlutverk sitt sem barnung Wednesday Addams í kvikmyndunum frá tíunda áratug síðustu aldar.
Wednesday þáttunum er lýst á Netflix sem gamanhrollvekju og eru skrifaðir inn í ákveðna satíru sem hefur einkennt Addams fjölskylduna frá upphafi. Það kveður við nýjan og nokkuð alvarlegri tón þar sem talað er undir rós um samfélagsástandið í Bandaríkjunum, þ.e. stöðu ungmenna á jaðrinum, fordóma, útskúfun, ofbeldi og einelti gagnvart þeim sem víkja frá því sem telst eðlilegt. Rósir hafa spilað nokkuð stóra rullu hjá Morticiu Addams sem snyrtir rósir með því að klippa útsprungna hlutann af þeim sem mætti lesa sem allegóríu, að hafna því sem almennt telst vera fallegt og hefðbundið og fagna þess heldur hinum þyrnum stráða stilk. „Ég fæddist til ljóssins og lífsins“ söng Ragnheiður Gröndal um árið en Wednesday Addams fæddist til myrkurs og mæði á föstudeginum þrettánda og fékk miðvikudagsnafnið í vöggugjöf frá móður sinni. Íslendingar tengja mánudaga við mæði en miðvikudaga til moldar og á það prýðilega við þegar kemur að Wednesday en hún hefur unun af gróteskum grafartökum. Mæði (e. woe) kemur fyrir í þáttarnöfnum í vel útfærðum orðaleikjum sem endurspegla efni hvers þáttar.
Í fyrsta þættinum fá áhorfendur innsýn í skólagöngu systkinanna Wednesday og Pugsley Addams sem ganga í nokkuð hefðbundinn amerískan framhaldsskóla. Upphafssenan sýnir baksvip Wednesday og einkennandi svartar fléttur hennar eru áberandi þar sem hún gengur þungum skrefum um ganga skólans og hugleiðir sadismann sem felst í því að þröngva fjöldamörgum ungmennum saman inn í undirfjármagnaðan skóla sem stjórnað er af bitru fólki með löngu brostna drauma. Hún leitar uppi bróður sinn sem hefur verið bundinn og troðið inn í skáp. Hann er með epli í munni sem er ákveðinn endurómur til þess sem áhorfendur sáu í kvikmyndunum. Wednesday segir að hún ein hafi leyfi til að kvelja hann og ræðst á þau sem leggja hann í einelti með því að sleppa mannætufiskum í sundlaug eins kvalara hans. Þetta atvik vekur ákveðin hugrenningatengsl við skólaárásir í Bandaríkjunum og er nokkuð bratt fyrir andrúmsloft samtímans. Wednesday er í kjölfarið vikið úr skólanum og send í Nevermore heimavistarskóla fyrir utangarðsungmenni.
Wednesday Addams var í kvikmyndunum bráðgáfað og undarlegt barn sem var ávallt með hnyttin tilsvör. Hún er ein ástsælasta sögupersóna Addams fjölskyldunnar og birtist nú áhorfendum sem ung femínísk andhetja eða friðarspillir, orðræða hennar er mjög femínísk og er hún endurtekið gagnrýnd fyrir að rugga bátnum og vera ekki stillt og góð. Hún hefur fullorðnast og áhugamálin þróast út í skáldsöguskrif um misskilinn táningseinkaspæjara sem svipar til hennar sjálfrar, heimspekilegar hugleiðingar sem beinast inn á við og samband hennar og samskipti við aðra.
Þrátt fyrir það að vera mótfallin þeirri hugmynd að ganga í sama skóla og foreldrarnir og dvelja í skugga fyrri afreka móður sinnar, leggur hún sín lóð á vogarskálarnar til að upplýsa dularfullt mál um skrímsli sem herjar á bæjarbúa og samnemendur. Samband hennar við móðurina er flókið og líka samskipti hennar við skólastjóra Nevermore skólans og herbergisfélaga sem er algjör andstæða hennar. Wednesday er vön því að vera utangarðs en bregður eilítið við að vera komin í skóla sem samanstendur af varúlfum, vampírum og öðrum yfirnáttúrulegum verum sem eru einnig á jaðri samfélagsins. Hún stingur þó enn í stúf vegna sérvisku sinnar, litaóþols og uppreisnargirni.
Þættirnir sýna kunnuglegar amerískar klisjur sem tengjast heimavistarskólum svo sem skólamót, foreldradaga og dansleiki en á afhjúpandi hátt. Hér má nefna senu þar sem Wednesday fær, eins og Öskubuska, samkvæmiskjól að gjöf frá hjálparhöndinni Thing og gengur í honum ólundarlega niður stiga á meðan vonbiðill hennar horfir með aðdáun á hana. Hún segir „Er ég óþekkjanleg, fáránleg. Klassískt dæmi um hlutgerða konu í karllægu sjónmáli?“. Wednesday dansar með tilþrifum á dansleiknum og gleðst þegar blóðrauðri málningu er skvett yfir gestina, í atriði sem á í ákveðnu samtali við fræga senu úr sígildu hrollvekjunni Carrie en snýr henni um leið á hvolf.
Jenna Ortega sýnir afburðaleik sem Wednesday, hún hefur góð tök á að tjá sig með svipbrigðum sem og skila af sér meistaralega samsettri orðræðu. Leikkonan hefur sagt í viðtölum að hún hafi alltaf verið lík Wednesday og fólk hafi haft orð á því. Gwendoline Christie á einnig stórleik, í hlutverki skólastjórans. Hún gnæfir yfir alla vegna hæðar sinnar en heldur um leið reisn sinni og kvenleika og líkist helst stórstjörnu sígildra kvikmynda. Christie lét hafa eftir sér í viðtali að þetta sé í fyrsta sinn sem hún upplifir sig fallega á skjánum sem sýnir jaðarstöðu hávaxinna leikkvenna. Sögupersónan Thing er einstaklega vel skrifuð hjálparhella og að mínu mati senuþjófur þáttanna. Tim Burton krafðist þess að leikari af holdi og blóði léki hlutverkið og hreppti rúmenskur töframaður að nafni Victor Dorabantu hnossið en þættirnir eru jafnframt teknir upp í Rúmeníu sem skapar ákveðið dularfullt andrúmsloft.
Tónlistarval í þáttunum er prýðilegt og áhrifamikið. Hér má nefna tilfinningaþrunginn sellóleik Wednesday. Það tjáir líka tilfinningar hennar þegar hún sleppir mannætufiskum í sundlaugina og Edith Piaf syngur undir „Nei, ég sé ekki eftir neinu“ (Non, je ne regrette rien).
Veikleikar þáttanna birtast helst í fremur ósannfærandi ástúðlegu sambandi Addams hjónanna en þar hefur verið brugðið út af vananum og Gomez túlkaður í því ljósi sem Charles Addams teiknaði hann. Luis Guzmán sem nú leikur Gomez hefur ekki sama sjarma og Raul Julia sem lék hann í Addams kvikmyndum. Það vantar tilfinnanlega neistann milli hans og Catherine Zeta Jones sem leikur Morticiu. Raunar er það svo að það neistar meira á milli þeirra ungu leikara sem leika hjónin á skólaárum þeirra. Einnig má nefna nokkuð hraða afgreiðslu á veigamiklum atburðum og slaka frammistöðu sumra aukapersóna.
Þegar uppi er staðið eru þættirnir fínasta skemmtun og verðugt dægurmenningarlegt framlag til sögu Addams fjölskyldunnar sem hefur ávallt ögrað og aldrei tekið sig of alvarlega, þó að nú megi greina nokkuð alvarlegri tón í því umróti sem unglingsárin eru.
Eyrún Lóa Eiríksdóttir flutti pistil sinn í Lestinni á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.
Period | 6 Dec 2022 |
---|
Media contributions
1Media contributions
Title Miðvikudagur: Femískur friðarspillir fer í framhaldsskóla Degree of recognition National Media name/outlet RÁS1 Media type Radio Country/Territory Iceland Date 6/12/22 URL https://www.ruv.is/utvarp/spila/lestin/23619/7hr92p Persons Eyrún Lóa Eiríksdóttir
Related content
-
Impacts
-
Raddir kvenna á Netflix
Impact: Cultural impacts, Quality of life impacts, Social impacts