Hvaða máli skiptir menntun?
Forseti Menntavísindasviðs skrifar grein sem er hluti af átaki um vitundarvakningu um menntun og mikilvægi kennara.
Birt í Kjarnanum
Þessi spurning virðist fremur fánýt og ef til vill óþörf. Hver myndi halda því fram að menntun skipti litlu sem engu máli? Við þurfum ekki nema að huga að eigin lífsferli til að átta okkur á þeim áhrifum sem kennarar og menntastofnanir hafa haft á líf okkar. Á hverjum virkum degi allan ársins hring ganga börn á Íslandi í leikskóla, 180 daga ársins sækja 6-16 ára börn á Íslandi grunnskóla, og allflest ungmenni á Íslandi innritast á einhverjum tímapunkti í framhaldsskóla, þó ekki ljúki þau öll námi. Það virðist svo augljóst að menntun skipti máli, að við gefum okkur sjaldan tíma til að spyrja hvaða máli skiptir menntun? Þó er mikilvægt að velta þessari spurningu fyrir sér, því hún knýr á um að við veltum fyrir okkur markmiði og tilgangi menntunar.