Description

Eyrún Lóa Eiríksdóttir, doktorsnemi og sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, fjallar um þættina Kaleidoscope sem sýndir eru á Netflix.

Fyrir tíma streymisins var sjónvarpsáhorf oft og tíðum félagsleg athöfn með fjölskyldu eða vinum og var horft á sjónvarpstæki sem var staðsett í miðlægu rými á heimilinu. Dagskrá var línuleg, hófst á ákveðnum fyrirfram gefnum tíma og ekki var hægt að stöðva áhorfið eða flakka fram og til baka. Með tilkomu streymisefnis hafa áhorfsvenjur breyst og persónuleg dagskrá í snjalltækjum og hámhorf vikið fyrir áðurnefndum venjum. Það sem hefur hins vegar ekki breyst er þörf áhorfenda fyrir að tala um sjónvarpsefni og jafnvel meðan á áhorfinu stendur í gegnum samfélagsmiðla.

Ofgnótt sjónvarpsefnis hefur það í för með sér að nokkuð erfitt er að velja úr hvað skuli horfa á og því freistandi að líta til vinsældalista og þess sem aðrir eru að horfa á til að vera samræðuhæfur um það sem er efst á baugi hverju sinni. Þættirnir Kaleidoscope voru frumsýndir á Netflix á nýársdag og fóru samstundis á topp tíu listann yfir vinsælustu þætti á Íslandi. Þættirnir eru átta talsins í svokallaðri smáseríu sem þýðir að það verður líklega ekki framhald á þeim en slíkt getur verið mjög þreytandi fyrir áhorfendur sem kunna vel að meta þætti sem hafa upphaf, miðju og endi (en ekki endaleysu).

Þáttarheitið vísar til rörlaga leikfangs sem nefnist á íslensku kviksjá, skrautstokkur eða skrautkíkir og inniheldur skrautflygsur, úr t.d. perlum og glerbútum sem komið hefur verið fyrir í rörinu. Þegar horft er inn í kviksjána og henni snúið ummyndast formin og breytast en upphafsstef Kaleidoscope kallast á við þennan gjörning þar sem litrík form umbreytast í einn lit sem heiti hvers þáttar dregur nafn sitt af. Það sem er helst áhugavert við þættina er sýningarröðin en þeir eru stokkaðir upp fyrir hvern einasta áhorfanda sem þýðir að flestir horfa á þættina í sinni röðinni hver fyrir utan stuttan kynningarþátt í byrjun sem nefnist Svartur og lokaþáttinn sem ber nafnið Hvítur. Reikningsglöggir hafa reiknað út að það séu fjörutíuþúsund mismunandi leiðir til að horfa á þáttaröðina en það er önnur saga.

Í kynningarþættinum kemur fram að áhorfendum bjóðist í gegnum einstaka áhorfsupplifun að fylgjast með ráni sem var tuttugu og fimm ár í mótun. Hver þáttur fjallar um mismunandi tíma fyrir eða eftir ránið og virkar sem púsluspil fyrir þátttöku hvers og eins en þess má geta að þættirnir áttu að nefnast púsluspil í byrjun og eru lauslega byggðir á sönnum atburðum. Þátturinn endar á orðunum „þú ert nú að ganga inn í heim kviksjárinnar“ sem vekur hugrenningartengsl við tölvuleiki og annað margmiðlunarefni. Svipuð tilraunastarfsemi hefur áður verið reynd á streymisveitum en með misgóðum árangri. Þetta útspil Netflix hefur helst í för með sér að vekja athygli áhorfenda sem eru e.t.v. orðnir lúnir af þeirri ofgnótt af sjónvarpsefni sem í boði er og finnst því nokkuð skemmtilegt að brjóta upp formið og hugleiða á meðan á áhorfinu stendur hvort uppröðun þáttanna hefði skipt máli fyrir heildarupplifun og hvernig áhorfandinn samsamar sig við einstakar sögupersónur.

Í tímaröð eru þættirnir í eftirfarandi röð: Fjólublár, Grænn, Gulur, Appelsínugulur og Blár sem eiga sér stað fyrir ránið. Þátturinn Hvítur hverfist um ránið sjálft og svo Rauður og Bleikur sem eiga sér stað eftir það. Fyrsti þátturinn sem ég horfði á var Gulur og var það nokkuð góður upphafspunktur þar sem þetta er sá þáttur þar sem aðalsöguhetjan setur saman ræningjahóp sinn. Það sem truflaði mig helst í síðari þáttum var að Bleikur kom á undan þættinum um ránið sjálft en þar með var aðalatburðurinn orðinn að aukaatriði. Þó eru alls kyns smáatriði sem fara fram hjá áhorfendum við fyrsta áhorf og því er vert að horfa á alla seríuna aftur og þá í tímaröð en þáttarstjórnandinn Eric Garcia hafði það í huga við gerð þáttanna. Þættirnir eru svokallaðir „heist“-þættir í anda þátta eins og Money Heist og Ocean‘s Eleven kvikmyndanna. Þeir hverfast um meistaraþjófinn Leo Pap sem Giancarlo Esposito leikur. Hann er áhorfendum m.a. kunnugur úr Breaking Bad-þáttunum og á hann stórleik í Kaleidoscope.

Ræningjateymið er samansett af þekktum leikurum á borð við Paz Vega sem leikur hina argentísku Ava Mercer, Jai Courtney sem leikur Bob Goodwin, Rosaline Elbay sem leikur konu hans Judy, Peter Mark Kendall sem leikur Stan Loomis og Jordan Mendoza sem lekur RJ Acosta. Þessi ræningjahópur er mjög áhugaverður og er kastljósinu beint að áhugamálum þeirra og styrkleikum, átökum og árekstrum þeirra á milli en einnig góðri samvinnu þegar svo ber undir. Niousha Noor leikur frústreraðan FBI-fulltrúa að nafni Nazan og kemur því vel til skila hvernig það er að týnast í vinnunni, vera haldin þráhyggju og hversu skaðlegt það er fyrir fjölskyldulífið.

Leikarahópurinn er samansettur af mismunandi þjóðernum og hafði ég nokkuð gaman af því að fylgjast með dóttur Leos sem leikin er af hinni hálfkóresku Tati Gabrielle tala kóresku og ensku við systur sína en þetta myndaði nokkuð skemmtilega tengingu við vinsæla kóreska þætti sem sýndir eru á Netflix. Í viðtali þar sem aðalleikari þáttanna, Giancarlo Esposito, ræðir þættina bendir hann á að við sem áhorfendur reynum alltaf að vera einu skrefi á undan sögupersónunum sem við horfum á en í þáttunum þurfi að bíða eftir svarinu. Rufus Sewell sem leikur Roger Salas (skúrk þáttanna) segir að fyrstu viðbrögð sín við þáttunum hafi verið að þetta væri skemmtilegt auglýsingabragð en að það hafi komið honum nokkuð á óvart hvað þættirnir voru vel skrifaðir og að hann hafi kunnað að meta hversu óvenjulegir þeir eru. Þarna nefnir hann það sem gagnrýnendur hafa helst rætt um, að þættirnir séu einmitt ekki svo óvenjulegir þegar kemur að söguþræði en auglýsingabrellan í uppstokkun þáttanna sé það sem laði áhorfendur að þeim.

Sagan er að upplagi hefndarsaga, fjallar um misviturlegar ákvarðanir og þráhyggju sem leiðir af sér enn stærri mistök og harmræna atburði og er um leið fjölskyldusaga og ástarsaga. Söguþráður Kaleidoscope er spennandi og nokkuð vel skrifaður en það sem truflaði mig helst er að skúrkur þáttanna var ekki nægilega mikið illmenni til að ég héldi að fullu með aðalsöguhetjunni og ræningjahópnum sem sviku hvert annað við hvert tækifæri. Atriðin eru vel leikin, sviðsmynd stórbrotin og heildarútfærsla þáttanna góð. Veikleikar þáttanna og nánast ófyrirgefanlegt feilspor felst í endurlitum þar sem aðalleikarinn er yngdur upp með afspyrnu lélegum hætti svo úr verður nokkurs konar vaxstytta sem talar. En þegar upp er staðið eru þættirnir mjög góðir afþreyingarþættir, skemmtileg byrjun á sjónvarpsárinu og innlegg í sjónvarpsflóruna sem gaman verður að ræða um við aðra áhorfendur.

Period11 Jan 2023

Media contributions

1

Media contributions