Description

Grein í Fréttablaðinu 11. mars 2020

Subject

Lesskilningur nú á tímum er allt annar en hann var fyrir 20 árum. Breytingar vegna hraðrar þróunar í tækni, sem er nú hluti af daglegu lífi okkar, má í raun kalla byltingu. Tæknin hefur áhrif á samskipti á milli einstaklinga, innan samfélaga og á milli þjóða, sem og þau tækifæri og þær aðferðir sem við höfum til að nálgast þekkingu og afþreyingu. Tæknin markar einnig þær leiðir sem arðbærastar eru í framleiðslu og starfsháttum hjá fyrirtækjum.

Óhjákvæmilega hafa þessar breytingar áhrif á þá sýn sem við höfum á menntun, hvað það er sem nemendur þurfa að þjálfa og öðlast færni í, til að þeir njóti velgengni í lífi, námi og starfi um alla framtíð. Því má segja að í skólastarfi þurfi að verða bylting.

Nú er ekki lengur þörf á utanbókarlærdómi því staðreyndir er hægt að leita uppi á augabragði, snjallsíminn er alltaf við höndina. Þegar leitað er þekkingar er framboðið óendanlegt, fjölbreytilegt efni er sett fram á margvíslegan hátt. Þá reynir á getu lesenda til að átta sig á því hvað skiptir máli, hvað er satt og hvað er ósatt, hvað eru skoðanir og hvað eru staðreyndir. Draga þarf ályktanir og meta upplýsingar eftir uppruna og hagsmunum höfunda, greina mun á innihaldi og tilgangi texta. Lesendur þurfa að bera saman og samþætta upplýsingar sem eru settar fram frá ólíkum sjónarhornum, geta greint hliðstæður og andstæður, gert greinarmun á aðalatriðum og aukaatriðum.

Í skólastarfi þurfa nemendur tækifæri til að þjálfa slíkan lestur en á þann hátt má leitast við að byggja upp sjálfstæða nemendur, að þeir þrói með sér gagnrýninn hug og forvitni. Skólastarf þarf að taka mið af þessum áskorunum, náms- og kennsluhættir verða að byggja á þeim.

Það er einmitt þessi færni sem lesskilningshluti PISA mælir á efstu hæfniþrepunum. Árið 2018 sýndu aðeins 7% íslenskra nemenda færni af þessum toga en 26% íslenskra nemenda gátu aðeins leitað að og fundið upplýsingar sem voru settar greinilega fram í einföldum stuttum texta. Þá sýna skimunarpróf Menntamálastofnunar að á meðal 15 ára unglinga eiga 30% erfitt með að tengja saman bókstafi og hljóð og kalla fram orð og setningar, þeir hafa ekki öðlast tæknilega lestrarfærni sem er nauðsynleg til að geta lesið áreynslulaust og einbeitt sér að innihaldi textans.

Þó grundvallarlestrarfærni sé forsenda þess að hægt sé að skilja og vinna með texta þarf í nútímasamfélagi og skólastarfi að leggja enn meiri áherslu á hugvitið, að einstaklingar nái að eflast vitsmunalega. Nemendur þurfa að fá ríkuleg tækifæri til að rökræða og skrifa um viðfangsefni námsins, tengja nútíð við fortíð og framtíð og vinna þvert á námsgreinar. Þá er nauðsynlegt að geta nýtt sér tæknina til að þróa nýja þekkingu í þeirri viðleitni að efla færni og afrakstur starfs síns, sér til framdráttar. Með síauknum möguleikum gervigreindar verða til nýjar kröfur og öðruvísi, sem gerðar eru til einstaklinga, starfsfólks og þjóðfélagsþegna sem mynda samfélög.

Vegna þess að breytingarnar eru svo örar og ófyrirsjáanlegar er það hagsmunamál fyrir einstaklingana sjálfa svo og samfélögin í heild að nemendur, framtíðarþjóðfélagsþegnar, nái þeirri hæfni sem nýir lífshættir og áskoranir kalla á – og ekki síður sem reynir á í samkeppni á milli einstaklinga, hópa og þjóðfélaga. Við þurfum að geta tekið virkan þátt í og ekki síður hagnast á auknum samskiptum á milli þjóða á heimsvísu á tímum þegar þekking, og einnig falsfréttir, aukast á leifturhraða sem aldrei fyrr.

Period11 Mar 2020

Media contributions

1

Media contributions

 • TitleFréttablaðið
  Degree of recognitionNational
  Media name/outletFréttablaðið
  Media typeWeb
  Country/TerritoryIceland
  Date11/03/20
  PersonsSigríður Ólafsdóttir