Íslenska og læsi í skólastarfi

Press/Media

Description

Umfjöllun í Fréttablaðinu 8 mars 2022

Subject

Samkvæmt lesfimiprófum Menntamálastofnunar hefur frá síðustu aldamótum um það bil þriðjungur 15 ára nemenda verið á rauðu í grunnfærni í lestri, en í janúar 2022 var hlutfallið 36%. Niðurstöður PISA fyrir árið 2018 sýndu að einn þriðji hluti drengja og helmingur nemenda af erlendum uppruna hafði ekki lágmarksfærni í lesskilningi. Staðan er nokkuð alvarleg því kröfur um lestrarfærni hafa síður en svo minnkað síðustu áratugi, heldur þvert á móti hefur lestrariðkun sífellt orðið fjölbreyttari og flóknari.

Nú leitum við okkur þekkingar á margs konar miðlum, ómælt magn upplýsinga er sett fram á margvíslegan hátt. Ekki nægir lengur að geta lesið texta og skilið innihald hans, heldur þurfum við að átta okkur á því að sumt sem við lesum er lygi, annað eru ályktanir eða skoðanir, og svo er að finna þekkingu sem hvílir á rannsóknum.

Góð lestrarfærni verður ekki til bara þegar ráfað er á netmiðlum með ákveðna leit í huga. Læsi byggir á reynslu hvers einstaklings – fyrst er það málörvun á heimilum og síðan virk þátttaka í skólastarfi.

Öll börn eiga rétt á því að taka virkan þátt í skólastarfi, hvað svo sem skólafyrirkomulagið heitir, skóli án aðgreiningar, skóli fyrir alla, einstaklingsmiðað nám. Það sem skiptir öllu máli er að hver kennslustund nýtist hverju barni til framfara.

Málþroski og læsi barna fer eftir því hversu góð tækifæri þau fá til að hlusta á sögur og segja sögur, tala saman um nýja þekkingu, velta fyrir sér ólíkum sjónarhornum. Í hvert sinn sem ákveðin viðfangsefni eru tekin fyrir í mállegum samskiptum, jafnvel með ungum börnum í leikskóla, er lagður grunnur að framtíðarfærni barna í að afla sér þekkingar og nýta sér hana.

Íslenskufærnin eykst síðan þegar börn lesa sjálf, og sum börn þurfa meiri stuðning en önnur, markvissan stuðning með kennsluaðferðum sem rannsóknir sýna að skila bestum árangri.

Tungumál í virku skólastarfi, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, er mun ríkulegra en tungumálið sem notað er á heimilum. Jafnvel þótt fjallað sé um málefni líðandi stundar við eldhúsborðið, eins og flóttamannastrauminn nú, verður umræðan aldrei sambærileg við markvissa umfjöllun í skólastarfi sem nýtt er á ýmsum sviðum námsins, í samfélagsfræði, íslenskutímum og náttúruvísindum.

Þegar málefni eru rædd í öflugu skólastarfi á dýptina, þekking aukin og unnið með nýjar upplýsingar í rökræðum og síðan í rituðu máli verður umfjöllunin miklu ríkari, tungumálið verður mun fjölbreytilegra en í samtali með fjölskyldu og vinum. Í árangursríku skólastarfi nær læsisfærnin, íslenskufærnin að blómstra. Í skólanum eru tækifærin mest og best fyrir málþroska og læsi barna og fyrir íslenska tungu.

En höfum við veitt styrki í slíkt skólastarf? Fá kennarar á öllum skólastigum viðurkenningu, laun, hvatningu og stuðning í samræmi við þetta mikilvæga hlutverk í starfi þeirra með börnum? Kennarar sem ræða á íslensku við börn um stærðfræði, náttúruvísindi, samfélagsfræði, bókmenntir. Öll þessi íslenska sem notuð er á hinum ýmsu sviðum skólastarfs með börnum frá tveggja ára aldri og í gegnum allt skólakerfið.

Við höfum styrkt máltækni fyrir íslensku, til að við getum rætt á íslensku við bílana, snjalltækin og annað, sem er hið besta mál. Við þurfum að geta notað íslensku í daglegu lífi á tækniöld. En hvaða tungumál er það sem við notum við snjalltækin okkar í daglegu amstri? Er það námstengt tungumál? Sennilega á einhverjum sviðum, en litlar líkur eru á því að við notum í samtölum við tækin okkar orð eins og orsakir, afleiðingar, ógn, framvinda, hagsmunir, fordómar, fordæma, hlutleysi, afstaða, gefa eftir, gefast upp, af því leiðir, í hnotskurn.

Tal við tækin á íslensku eða afþreying á íslensku, það er aldrei tungumál sambærilegt við tungumálið sem notað er í innihaldsríku skólastarfi. Íslensku stendur engin ógn af því að börn og ungmenni noti ensku og önnur tungumál í frítíma sínum, í raun er það mjög æskilegt og sjálfsagt. Miklu meiri hætta stafar af því að börn séu meira og minna óvirk í skólastarfi, fjögur ár í leikskóla og síðan tíu ár í grunnskóla, fyrir lífsgæði barna, lýðræðið og samfélagið í heild. Börn sem skilja lítið og tala lítið, börn sem ná ekki tökum á lestri og börn sem lesa og skrifa sjaldan, það er staða sem er óásættanleg.

Íslenskufærni eflist fyrst og fremst í virku skólastarfi, þegar nemendur fá tækifæri til að lesa, tala saman og skrifa, og læra margvísleg orð, m.a. orð sem eru lykill að flókinni hugsun. Þegar nemendur nota svo orðin í umræðum og ritun má segja að þau hafi eignast orðin. Með flókinni umræðu fylgir fjölbreytilegt tungumál: Fjölbreytilegur orðaforði, málfræði og setningagerð.

Gefum börnunum slíkt tungumál, að þannig tungumál verði þeirra. Þá verða þau sífellt betur í stakk búin til að hugsa um og ræða flókin málefni og leita sér þekkingar víða, á íslensku, ensku og fleiri tungumálum.

Að íslenskan verði allra barna í íslenskum skólum, með öllum þeim blæbrigðum sem nemendur þurfa á að halda fyrir þekkingu sína og visku og ófyrirsjáanlega framtíð.

Við þurfum að gefa kennurum og skólabörnum stuðning, svigrúm og möguleika á því að vinna á svo árangursríkan hátt með málþroska og læsi. Við þurfum að veita styrki í þróun máleflandi skólastarfs og rannsóknasamstarf sérfræðinga á sviði málþroska, læsis og íslenskra fræða. Jafnframt þarf að létta álagi af kennurum með því að ráða fleira fagfólk inn í skólana. Það væru göfug skref börnunum til heilla

Period8 Mar 2022

Media contributions

1

Media contributions

 • TitleFréttablaðið
  Degree of recognitionNational
  Media name/outletFréttablaðið
  Media typeWeb
  Country/TerritoryIceland
  Date8/03/22
  Producer/AuthorÞórdís Lilja Gunnarsdóttir
  PersonsSigríður Ólafsdóttir