Ég hata jólin: Örvæntingarfull leit að „jólakæró“

Press/Media

Description

Eyrún Lóa Eiríksdóttir rýnir í ítalska jólaþætti Odio il Natale, þar sem viðfangið jólakærasti er í brennidepli.

Orðið „jólakæró“ fór að heyrast fyrir nokkrum árum. Þar er átt við ástarviðfang sem veitir kærkomin faðmlög og samveru um jólin. Einmanaleiki á það til að láta á sér kræla á þessum árstíma og virkni á stefnumótaforritum er með mesta móti. Dægurmenningin heldur að okkur þeirri hugmynd að það sé ekkert betra en að vera með sínum heittelskaða um jólin og má þar nefna vinsæl jólalög eins og „All I want for Christmas is you“ með Mariah Carey og „Þú komst með jólin til mín“ með Ruth Reginalds og Björgvini Halldórssyni. Þá hverfast margar jólakvikmyndir um ástina og má þar nefna vinsælar rómantískar kvikmyndir á borð við Love Actually og The Holiday. Ástin kemur einnig þónokkuð við sögu í The Grinch. Einn vendipunktur þeirrar sögu er að samnefnd söguhetja leggur til hliðar andúð sína á jólunum og tekur þátt í jólahaldinu með það fyrir augum að vera með þeirri sem hann elskar.

Ekki hefur farið mikið fyrir jólaástarsögum í sjónvarpsþáttaformi, þó mikið sé framleitt af jólakvikmyndum sem falla í ástarsöguflokkinn. Netflix reyndi fyrir sér með jólasjónvarpsþættinum Dash og Lily fyrir nokkrum árum með ágætis árangri og hinum norsku Heima um jólin. Þeir þættir hafa nú verið endurgerðir í skvísulegri ítalskri útgáfu og bera nafnið Ég hata jólin (Odio il Natale) og fjalla um örvæntingarfulla leit þrítugrar konu að „jólakæró“.

Hugmyndina að norsku þáttunum Heima um jólin eiga nemendur í auglýsingafræði sem þróuðu hugmyndina og komu henni á framfæri við Netflix. Þetta voru dagatalsþættir fyrir fullorðna, í anda vinsælla norskra gamanþátta og með sérstaka áherslu á raunir einhleyprar ungrar konu í leit að hinum fullkomna lífsförunaut (sem er í raun ekki til). Sjálfsást og sjálfsöryggi voru auk þess burðarliður í hugmyndinni að þáttunum en það hefur löngum tengst póstfemínískum áherslum þar sem áhersla er lögð á að breyta sjálfum sér en ekki kerfinu sem slíku. Í endurgerðinni Ég hata jólin hallar söguþráður og efnistök sér mun meira í átt að skvísusögunni en í norsku upprunalegu þáttunum. Má þar nefna þemu sem áhorfendur þekkja úr Dagbók Bridget Jones og Beðmálum í borginni. Orðræða og atburðarás hverfist um aldur, atvinnu, tímakrísuna, neyslu, vináttu og rómantík en þessi atriði eru helstu einkenni skvísusögunnar.

Þættirnir fjalla um þrítugan hjúkrunarfræðing, Giönnu (Pilar Fogliati)  og örvæntingarfullt kapphlaup hennar til að finna hinn eina rétta og uppfylla kröfur fjölskyldu og vina um að binda sig í báða skó. Gríðarlega mikil póstfemínísk pressa er á aðalsöguhetjuna og aðrar kvenpersónur og þá helst í formi tímakrísunnar svokölluðu en Gianna fær endurtekið þau skilaboð að hún sé að renna út á tíma með að gifta sig og eignast börn. Útlitstengdar kröfur eru einnig áberandi, til dæmis að hún sé að eldast og þurfi að klæða sig á ákveðinn hátt. Hvert sem hún lítur hefur fólk parað sig saman og hún á erfitt með að komast yfir sinn fyrrverandi sem er nú giftur maður með ungbarn.

Þættirnir eru hálftíma langir og vissulega í jóladagatalsformi þar sem talið er niður til jóla og auðvelt að koma þeim fyrir í þéttskipaðri jóladagskrá desembermánaðar. Andi skvísusögunnar svífur yfir vötnum og birtist helst í játningum aðalsöguhetjunnar og fyndnum og vandræðalegum uppákomum. Þættirnir eru mjög fallegir að mínu mati þar sem smábærinn sem nefndur er Litlu Feneyjar nýtur sín vel og fagurfræðin er allsráðandi í nánast hverri einustu senu.

Í upphafsþættinum hefur Gianna komið sér vel fyrir í stofunni heima hjá sér, með rauðvínsglas, og segir: „Ég hata jólin, ég vildi bara segja þér það“. Ástæðan fyrir því að Gianna hatar jólin er að eigin sögn sú að jólin eru á móti henni. Öllum í kringum hana er sama um það, það eina sem skiptir máli er að eiga sína eigin fjölskyldu. Gianna segist vera vandamál móður sinnar þar sem hún er hvorki gift né í sambandi en systkini hennar eru öll komin í örugga höfn í lífinu þar sem þau hafa gifst og eignast börn. Gianna upplifir það sem refsingu þegar móðir hennar lætur hana sitja hjá barnungum frændsystkinum og er samband mæðgnanna stirt og móðirin mjög dómhörð.

Gianna segir áhorfendum að hún sé stolt af lífi sínu og sjálfstæði og þurfi hreint engan kærasta til að vera ánægð. Þrátt fyrir þetta finnur hún fyrir mikilli pressu við fjölskyldumatarborðið og segir upp úr eins manns hljóði að hún eigi kærasta, að hann komi í jólaboðið og verði kynntur fyrir fjölskyldunni. Þarna hefur Gianna komið sér í vandræði þar sem hún vill ekki viðurkenna að hún hafi skáldað þetta og heldur af stað í leit að hinum eina rétta nokkrum vikum fyrir jól.

Gianna á þrjár bestu vinkonur sem svipar til sögupersóna úr öðrum skvísusögum. Titti (Beatrice Arnera) sem býr með Giönnu og hefur það að leiðarljósi að sofa hjá sem flestum en eyða aldrei allri nóttinni með þeim. Caterine (Cecilia Bertozzi) sem rekur kaffihús, er hrein mey og þráir ekkert annað en að finna sálufélaga sinn og Margherite (Fiorenza Pieri) sem er systir Giönnu og stoð hennar og stytta.

Margherit er örþreytt taugaóstyrk móðir sem á erfitt með að komast yfir allt það sem fylgir barnauppeldi og því að vera „góð eiginkona“. Það er nokkuð skemmtileg sena þegar hún segir Giönnu að hún sé svo heppin af því hún þurfi ekki að gera „neitt“ og eins þegar aðrar mæður leggja orð í belg og segja að Gianna viti ekkert um svefnleysi þar sem hún er ekki móðir og þurfi ekki að skipta á bleyjum. Gianna segist vinna erfiða vaktavinnu og þurfi vissulega að skipta á bleyjum sem mæðurnar láta sem vind um eyru þjóta.

Vinkonur hennar taka sig saman og aðstoða Giönnu í leitinni að hinum eina rétta en í stað þess að stunda stefnumótaforritin leitar hún annarra leiða til að hitta draumaprinsinn svo sem í vinnunni, á „blindum“ stefnumótum, grillnámskeiði fyrir karla og á förnum vegi. Allir vonbiðlarnir eru staðalímyndir svo sem mömmustrákurinn, ungi graðfolinn, ríki maðurinn, eldri þingmaðurinn og myndarlegi læknirinn. Stefnumótin eru kómísk og skiptir þá engu hvort þau séu lágstemmd eða stórbrotin. Það sem stendur helst upp úr er að mínu mati ferðalagið um frumskóg ítalskra stefnumóta og samtölin við vinkonurnar sem eru afhjúpandi, einlæg og vel skrifuð.

 

Þó ítölsku þættirnir séu endurgerð er umgjörðin gjörbreytt og skvísusagan er eins og áður sagði í fyrirrúmi. Það eykur nokkuð skemmtanagildi þáttanna þar sem þeir eru hressilegri fyrir vikið og tónlistin í þáttunum lyftir þeim upp með suðrænum en jólalegum tónum.

Gianna kemst að því að grasið er ekki alltaf grænna hinum megin. Þótt allt virðist vera fullkomið við fyrstu sýn hjá öðrum pörum er það ekki alltaf raunin bak við tjöldin. Hún sættist við jólin og hættir að reyna að gera öðrum til geðs en um leið á sínum eigin forsendum þar sem hún finnur vissulega „jólakæró“. En þegar öllu er á botninn hvolft er þetta aukaatriði þar sem lærdómsríkt stefnumótaferðalag hennar vekur upp hugljómun og sjálfsuppgötvanir.

Þættirnir verða seint taldir meistaraverk en eru þó sakbitin sæla, eins og væn sneið af Pannettoni með þeyttum rjóma og gelatto-ís. Skilja kannski ekki mikið eftir en eru þó skemmtilegir meðan á áhorfinu stendur og nokkurs konar jólaferðalag til Feneyja fyrir okkur sem nauðsynlega þurfum á upplyftingu að halda til mótvægis við jólastressið.

Period21 Dec 2022

Media contributions

1

Media contributions