Á suðupunkti í Suður-Kóreu: Úttaugaðir foreldrar og uppgefnir námsmenn

Press/Media

Description

Suðurkóreskir sjónvarpsþættir hafa átt miklum vinsældum að fagna undanfarin misseri og vinsælustu þættir Netflix frá upphafi, Squid Game, eiga raunar uppruna sinn að rekja þangað. Kóresk menning hefur slegið rækilega í gegn á alþjóðavísu og er talað um kóresku bylgjuna í þeim efnum, en hún birtist hvað helst í vinsælli dægurlagatónlist (K-poppinu svokallaða), sjónvarpsþáttum (K-drama), kvikmyndum, snyrtivörum og kóreskri matargerð. Söguhetjur kóresku sjónvarpsþáttanna borða iðulega girnilegar kræsingar af bestu lyst ólíkt því sem áhorfendur eiga að venjast í bandarískum þáttum þar sem drykkir eru pantaðir en aldrei drukknir og matur sjaldan snæddur.

 

Töfrar K-dramans liggja í hinu sammannlega sem hrífur áhorfendur hvað mest en þar er fjallað um vandamál sem áhorfendur kannast við og sagan er sett fram með allegórískum hætti, í anda fantasíunnar eða siðferðislegrar sögu, og kaþarsis næst þegar hamingjuríkur endir er í höfn. Menning Suður-Kóreu birtist áhorfendum og hugað er að hverju smáatriði sem myndar nokkuð ánægjulegt sjónvarpsefni. Þættirnir eru klukkutíma langir í um sextán þátta seríu þar sem sagan klárast í lokaþætti. K-dramað sker sig nokkuð úr að því leyti að frásagnarsnið skarast og þættirnir höfða til breiðs áhorfendahóps. Oft er á ferðinni nokkuð flókið sambland af einlægri gleði eða fyndnum uppákomum og drama sem speglar þá nístandi erfiðleika sem suðurkóreska þjóðin glímir við.

Með speglun er átt við hugtak sem er m.a. notað í sjónvarpsfræðum og á rætur sínar að rekja til eftirlíkingar (e. mimesis) Aristótelesar. Fræðimaðurinn Arthur Asa Berger hefur rannsakað speglanir í sjónvarpsþáttum og segir að fígúrurnar sem speglaðar eru til áhorfenda séu ekki nákvæm eftirmynd af raunveruleikanum, speglunin geti verið bjöguð og innihaldið steríótýpískar framsetningar og almennar hugmyndir sem eiga ekki endilega við rök að styðjast í raunveruleikanum en eru þrátt fyrir það einhvers konar speglun á hugmyndum sem eiga sér brautargengi í samfélaginu sem sjónvarpsefnið er framleitt í. Þó K-dramaþættirnir séu fantasía er um leið að finna sannleikskorn í umfjöllunarefninu.

Barnsfæðingum fer stöðugt fækkandi í Suður-Kóreu og hafa stjórnvöld reynt að sporna við með því að styrkja foreldra með fæðingarstyrkjum og hvetja þannig til barneigna. Ástæðurnar fyrir barnleysi þjóðarinnar eru efnahagslegar en ungt fólk kvíðir framtíðinni og hikar við að eignast börn, m.a. vegna hás fasteignaverðs og þeirrar staðreyndar að það kostar gífurlegar fjárhæðir að mennta ungmenni. Dapurleg tilvera blasir við þeim sem standa höllum fæti menntunarlega séð og stéttaskipting er mikil. Álagið er hvað mest á mæður en þær eiga bæði erfitt með að taka sér frí frá vinnu og fara aftur út á vinnumarkaðinn og bera hitann og þungann af menntun barnanna.

Gamaldags hugsunarháttur um hlutverk mæðra er enn við lýði í Suður-Kóreu. Þetta kom m.a. fram í nýlegu viðtali við forseta landsins sem sagði að það væri ekkert vit í að hafa börnin í leikskóla, uppeldið ætti að fara fram heima við. Álagið byrjar því við fæðingu, eykst jafnt og þétt þegar kemur að skólagöngu og byrjar virkilega að vera íþyngjandi þegar ungmennin eru komin áleiðis í námi og þurfa kostnaðarsöm aukanámskeið og einkaskóla til að komast að í bestu háskólum landsins.

Hér á landi glíma foreldrar ekki við sams konar menntunarkapphlaup en vandamálin eru þó af keimlíkum toga,  birtast einna helst í þriðju vaktinni svokölluðu og því hvernig foreldrar og sérstaklega mæður þurfa að glíma við skilningsleysi skólayfirvalda yfir vanlíðan barna þeirra sem nú er nefnt skólaforðun. Þar er skuldinni oft skellt á börnin og foreldrana í stað þess að laga kerfið, sem augljóslega virkar ekki fyrir alla námsmenn eins og reynslusögur í fréttamiðlum hafa sýnt fram á undanfarna daga.

Þættirnir Crash Course in Romance sem sýndir eru á Netflix á laugardögum og sunnudögum fjalla um menntunarkapphlaupið í Suður-Kóreu og birtingarmyndir þess hjá mæðrum ungmenna. Aðalsöguhetjur þáttanna eru Nam Haeng-Seon, sem er fyrrum landsliðskona í handbolta og rekur fjölskylduveitingastað sem selur hefðbundinn kóreskan mat, og eftirsótti stærðfræðisnillingurinn og stjörnukennarinn Choi Chi-Yeol. Sú fyrrnefnda á yngri frænku sem hún hefur gengið í móðurstað en sú er afburðanámsmaður sem kemur illa við þá samnemendur sem keppa við hana og mæður þeirra sem taka til sinna ráða til að stöðva menntunarlegan framgang hennar.

Í upphafsþætti segir Nam Haeng-Seon: „Ég vissi ekki að hamingjan byggist á góðum einkunnum.“ Fram til þessa hefur dóttir hennar fengið hefðbundið uppeldi með frístundum og útiveru eftir skóla í stað þess að sitja á námskeiðum og við heimalærdóm langt fram á kvöld eins og samnemendur hennar. Álagið er að sliga nemendurna sem glíma við geðræn vandamál og sjóntruflanir vegna pressu frá foreldrum og þeirri kröfu að vera ávallt á toppnum í einkunnum.

Nam Haeng-Seon fær þau skilaboð frá nærumhverfinu að til að vera góð móðir verði hún að brenna fyrir menntun dóttur sinnar og ganga mjög nærri sér líkamlega og andlega til að koma henni á bestu námskeiðin sem eru í boði. Dóttirin fær inni á námskeiði stjörnukennarans Choi Chi-Yeol, sem vekur reiði hjá ríkari mæðrum samnemenda hennar. Þær leggja á ráðin og beita sér fyrir því að útiloka hana frá námskeiðunum og kveða mæðgurnar í kútinn með vafasömum aðferðum, neteinelti, svindli og útilokun.

Samband Nam Haeng-Seon og stjörnukennarans er þyrnum stráð í upphafi en hann er sólginn í matinn á matsölustað hennar, þar sem maturinn vekur minningar um uppvaxtarárin þegar hann var fátækur námsmaður og móðir hennar eldaði ofan í hann. Það er afar algengt þema að ástarviðföng hafi fyrir tilviljun hist í barnæsku eða hafi einhvers konar tengingu í K-drama þáttum. Ástin tekur að blómstra milli þeirra en það er erfitt fyrir þau að vera saman þar sem Nam Haeng-Seon hefur sagt öllum að hún sé gift kona svo dóttir hennar verði ekki fyrir aðkasti í skólanum. Það sýnir aftur rótgróna fordóma samfélagsins gagnvart börnum sem eru munaðarlaus eða að einhverju leyti fyrir utan hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu. Þegar samband þeirra verður að fréttaefni vandast málin þar sem skuldinni er skellt á Nam Haeng-Seon og hún smánuð fyrir að hafa tælt hinn ofurríka og sjarmerandi stjörnukennara sem foreldrarnir vilja að komi börnum sínum á toppinn.

Það sem mér finnst helst áhugavert við þættina er hversu stuðandi það er að fylgjast með kappsömum foreldrum sleppa fram af sér beislinu og beita sér gagnvart öðrum börnum svo þeirra barn komist í fyrsta sæti. Þessu svipar til aðstæðna sem skapast í íþróttaiðkun barna hér á landi þar sem ofurkappsamir foreldrar missa ráð og rænu og hegða sér á vafasaman hátt eins og gert var grín að í síðasta Áramótaskaupi. En öllu gríni fylgir alvara og þótt sjónvarpsþættirnir séu að mestu í gamansömum tón á milli alvarlegra atriða þá sýna þeir það sem ungt fólk hefur kvartað yfir í Suður-Kóreu, lífsgæðakapphlaupið er erfitt og barneignum er frestað því barnauppeldinu fylgir ólýsanleg pressa sem úttaugaðir foreldrar eiga erfitt með að höndla.

Þættirnir eru ennþá í sýningu og því ekki ljóst hvernig leyst verður úr þeim flækjum sem eru til staðar þótt það sé von mín að réttlætið sigri. Það er fátt sem kætir aðdáendur K-dramans meira en ánægjulegur og réttlátur endir. En suðurkóreska þjóðin heldur í gleðina og heldur áfram að berjast eða með þeirra slagorði, „fighting!“.

Period14 Feb 2023

Media contributions

1

Media contributions