Description
Þann 1. júlí sl. skrifuðu Ásta Dís Óladóttir, formaður grunnnámsnefndar Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Erna Arnardóttir, VP of people hjá CCP undir samning um starfsþjálfun nemenda. „Það er einstaklega gaman að skrifa undir samning við alþjóðlegt fyrirtæki á borð við CCP,“ sagði Ásta Dís í tilefni undirritunarinnar „og enn ánægjulegra að fyrirtækið sé nú nánast í næsta húsi við okkur, Grósku. Þetta er gríðarlega spennandi tækifæri fyrir öfluga nemendur Viðskiptafræðideildar.“CCP hefur um árabil átt árangursríkt samstarf við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands um þjálfun starfsnema, sem leiðir gjarnan til fastráðningar. Þann 1. júlí 2020 var skrifað undir sams konar starfsþjálfunarsamning við Viðskiptafræðideild. Markmið samningsins er að tryggja nemendum starfsþjálfun hjá alþjóðlegu fyrirtæki undir faglegri handleiðslu sérfræðinga í leikjagerð og hugbúnaðarþróun og að tryggja handleiðslu stjórnenda og annarra sérfræðinga CCP í viðskiptatengdum greinum, s.s. markaðsmálum, reikningshaldi, mannauðsstjórnun, verkefnastjórnun og á sviði gagnavísinda svo eitthvað sé talið. Líkt og með alla starfsþjálfun eru það nemendur sem lokið hafa a.m.k. 120 eininga grunnnámi í viðskiptafræði sem geta sótt um starfsþjálfun hjá CCP. Umsækjendur fara í gegnum sama ráðningnarferli og aðrir starfsmenn sem ráðnir eru til fyrirtækisins en hjá CCP starfa á Íslandi um 240 manns frá 40 löndum. CCP flutti nýverið í Grósku, hús nýsköpunar á háskólasvæðinu, en þar er vinnuaðstaða og aðbúnaður starfsmanna með því besta sem þekkist.
„Við hjá CCP lítum björtum augum til nálægðarinnar og samstarfsins við háskólasamfélagið og erum opin og spennt fyrir samstarfi og samvinnu sem leitt getur til nýrra tækifæra. Við reynum að tileinka okkur hugarfar grósku (e. growth mindset) og hvergi er það meira viðeigandi en í nýja húsnæðinu, Grósku, og í samstarfi við akademíuna,“ segir Erna Arnardóttir, VP of People hjá CCP.
Period | 1 Jul 2020 |
---|---|
Degree of Recognition | Regional |