Description
Nú er vísindadagur Tilraunastöðvar Háskóla Ísland í meinafræði að Keldum haldinn í sjötta sinn. Hann hefur verið haldinn annað hvert ár og er búinn að festa sig í sessi sem vettvangur fyrir kynningu á starfseminni. Að vanda verður fjallað um ýmis áhugaverð vísinda- og þróunarverkefni Tilraunastöðvarinnar. Rannsóknir og vísindastörf á helstu fræðasviðum stofnunarinnar eru kynntar, en þau eru: príonfræði, veirufræði, bakteríufræði, sníkjudýrafræði, meinafræði, ónæmisfræði og sameindalíffræði. Starfsemi Tilraunastöðvarinnar er fjölþætt. Hér eru m.a. framkvæmdar vísindarannsóknir og greiningar á dýrasjúkdómum sem efla skilning á eðli sjúkdóma og skapa nýja þekkingu. Einnig er samstarf við atvinnulífið og opinbera stjórnsýslu, s.s. við landbúnað, fiskeldi og matvælaframleiðslu. Tilraunastöðin er í samstarfi við háskóla og stofnanir víðs vegar í heiminum. Vísindadagurinn er vettvangur til að kynna rannsóknir okkar fyrir ráðamönnum þjóðarinnar, háskólasamfélaginu, dýralæknum og íslensku samfélagi almennt. Einnig eflir vísindadagurinn upplýsingastreymi innan stofnunarinnar og hvetur þannig til aukins samráðs milli starfsmanna hennar og samstarfsaðila innanlands og erlendis. Þessi dagur er liður í að styrkja stefnumótun við uppbyggingu fræðigreina Tilraunastöðvarinnar og gefa yfirlit yfir stöðu einstakra rannsóknarverkefna. Fjöldi fyrirlestra á fyrri vísindadögum hafa verið frá 16 til 23 og fjöldi veggspjalda hafa verið frá sjö til 20. Einnig eru góðir gestir með framlag á vísindadeginum. Gestafyrirlesari er Karl Ægir Karlsson frá Háskólanum í Reykjavík og fjallar hann um sebrafiska sem dýralíkan í svefnrannsóknum. Í lok vísindadagsins eru nokkrir fyrirlestrar frá starfssystkinum við Háskóla Íslands. Margir þeirra sem kynna efni á vísindadeginum eru tengdir lífvísindasetri Háskóla Íslands. Lífvísindasetrið er skilgreint sem formlegt samstarf rannsóknahópa á sviði lífvísinda sem starfa innan Háskóla Íslands, stofnana HÍ og Landspítala. Rannsóknahópar innan Lífvísindaseturs leggja stund á rannsóknir á ýmsum sviðum lífvísinda. Markmiðið með Lífvísindasetri er efling samvinnu rannsóknarhópa, sem leiðir af sér þekkingarsköpun og öflugra vísindastarf. Stefnt er að því að sem flestir vísindamenn á sviði lífvísinda starfi við eða í nánum tengslum við Lífvísindasetrið í þeim tilgangi að skapa frjóan vettvang fyrir rannsóknir á þessu sviði. Vísindadagurinn er að venju haldinn í bókasafni Keldna og er aðgangur öllum heimill að kostnaðarlausu. Það sem þar fer fram verður aðgengilegt utan veggja Tilraunastöðvarinnar, því vefmyndavél er nú notuð í fyrsta sinn. Ráðstefnan er allan daginn og er skipt upp í nokkra ráðstefnuhluta. Erindin og veggspjöldin endurspegla árangursríkt vísindastarf við Tilraunastöðina, fjölbreytt fræðasvið við dýrasjúkdómarannsóknir og gefandi alþjóðlegt samstarf. Ráðstefnuhefti með dagskrá og útdráttum erinda og veggspjalda hefur verið fjölritað í tilefni dagsins. Ráðstefnuheftið og vefupptökur af fyrirlestrum eru aðgengileg á heimasíðu Tilraunastöðvarinnar www.keldur.is. Ég vil þakka öllum þeim sem gera vísindadaginn mögulegan, starfsfólki á skrifstofu, fundarstjórum, fyrirlesurum og þeim sem kynna veggspjöld. Sérstakar þakkir fær vísindanefndin sem sá um allan undirbúning og skipulag, en í henni eru Ástríður Pálsdóttir, Einar Jörundsson og Þorbjörg Einarsdóttir. Einnig vil ég þakka þeim sem veita fjárhagslegan stuðning og þeim sem sjá um að veitingar eru fram bornar. Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður.Period | 28 Mar 2014 |
---|---|
Event type | Conference |
Conference number | 6 |
Location | Reykjavík, IcelandShow on map |
Degree of Recognition | National |