Vísindadagur á Keldum 2012

Activity: Participating in or organising an eventOrganising a conference, workshop, ...

Description

Starfsemi Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er fjölþætt. Hér eru m.a. framkvæmdar vísindarannsóknir og greiningar á dýrasjúkdómum sem efla skilning á eðli sjúkdóma og skapa nýja þekkingu. Einnig er samstarf við atvinnulífið og opinbera stjórnsýslu, s.s. við landbúnað, fiskeldi og matvælaframleiðslu. Tilraunastöðin er í samstarfi við háskóla og stofnanir víðs vegar í heiminum og það skiptir miklu máli fyrir fámenna stofnun í litlu landi eins og okkar. Dreifing og miðlun nýrrar þekkingar er mikilvæg. Við á Tilraunastöðinni gerum það með ýmsum hætti, m.a. með vísindadegi sem haldinn er annað hvert ár, nú í fimmta sinn. Þessi dagur er vettvangur til að kynna rannsóknir okkar fyrir ráðamönnum þjóðarinnar, háskólasamfélaginu, dýralæknum og íslensku samfélagi almennt. Einnig eflir vísindadagurinn upplýsingastreymi innan stofnunarinnar og hvetur þannig til aukins samráðs milli starfsmanna hennar og samstarfsaðila innanlands og erlendis. Vísindadagurinn er liður í að styrkja stefnumótun við uppbyggingu fræðigreina Tilraunastöðvarinnar og gefa yfirlit yfir stöðu einstakra rannsóknarverkefna. Ráðstefnan er að venju haldin í bókasafni Keldna og er aðgangur öllum heimill að kostnaðarlausu. Ráðstefnur með svipuðu fyrirkomulagi voru haldnar árin 2002, 2004, 2006 og 2010. Fjöldi fyrirlestra á fyrri vísindadögum hafa verið frá 16 til 21 og fjöldi veggspjalda hafa verið frá 7 til 20. Á sextugasta afmælisári Keldna 2008 var auk þess haldin alþjóðleg ráðstefna. Á vísindadeginum okkar er aðallega fjallað um vísinda- og þróunarverkefni Tilraunastöðvarinnar. Rannsóknir og vísindastörf á helstu fræðasviðum stofnunarinnar eru kynntar, en þau eru: príonfræði, veirufræði, bakteríufræði, sníkjudýrafræði, meinafræði, ónæmisfræði og sameindalíffræði. Ráðstefnan er allan daginn og er skipt upp í nokkra ráðstefnuhluta. Erindin og veggspjöldin á þessum degi endurspegla árangursríkt vísindastarf við Tilraunastöðina, fjölbreytt fræðasvið við dýrasjúkdómarannsóknir og gefandi alþjóðlegt samstarf. Ráðstefnuhefti með dagskrá og útdráttum erinda og veggspjalda hefur verið fjölritað í tilefni vísindadagsins. Það er aðgengilegt á heimasíðu Tilraunastöðvarinnar www.keldur.is. Ég vil þakka öllum þeim sem gera vísindadaginn mögulegan, starfsfólki á skrifstofu, fundarstjórum, fyrirlesurum og þeim sem kynna veggspjöld. Sérstakar þakkir fær vísindanefndin sem sá um allan undirbúning og skipulag, en í henni eru Guðbjörg Jónsdóttir, Ívar Örn Árnason og Sigríður Jónsdóttir. Einnig vil ég þakka þeim sem veita fjárhagslegan stuðning og þeim sem sjá um að veitingar eru fram bornar. Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður.
Period30 Mar 2012
Event typeConference
LocationReykjavík, IcelandShow on map
Degree of RecognitionNational