Vísindadagur á Keldum 2010

Activity: Participating in or organising an eventOrganising a conference, workshop, ...

Description

Hefð er að skapast fyrir því að Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum haldi ráðstefnu annað hvert ár. Á ráðstefnunum hefur verið fjallað um rannsóknir á fræðasviðum stofnunarinnar með aðaláherslu á vísindastarfið sem unnið er á Tilraunastöðinni. Vísindadagur er nú haldinn í fjórða sinn, þeir fyrri voru árin 2002, 2004 og 2006. Árið 2008 var sextugasta starfsafmælisár Keldna og þá var haldin alþjóðleg ráðstefna um fisksjúkdóma og fiskaónæmisfræði. Eins og áður hefur ráðstefnuhefti með dagskrá og útdráttum erinda og veggspjalda verið fjölritað í tilefni vísindadagsins. Ráðstefnuheftið er aðgengilegt á heimasíðu Tilraunastöðvarinnar www.keldur.is Vísindadagurinn er eins dags ráðstefna sem er opin öllum áhugasömum þeim að kostnaðarlausu. Starfsmenn Tilraunastöðvarinnar og nemendur í rannsóknanámi eru með fyrirlestra um ýmis verkefni í príon-, veiru, bakteríu-, sníkjudýra-, sameinda- og ónæmisfræðum. Auk þess er veggspjaldasýning en þar verða kynnt fjölbreytileg verkefni á sömu fræðasviðum. Fyrirlesararnir sem skýra frá rannsóknaniðurstöðum og túlka þær eru margir hverjir með áratuga reynslu af vísindastarfi. Auk þess eru yngri vísindamenn, s.s. nemendur í rannsóknanámi, með kynningu á verkefnum sínum en hlutur þeirra í starfi Tilraunastöðvarinnar hefur farið vaxandi á síðastliðnum árum. Erindi og veggspjöld vísindadagsins endurspegla ágætlega fjölbreytilega starfsemi Tilraunastöðvarinnar. Samt sem áður er ekki mögulegt að kynna allar rannsóknir eða aðra starfsemi sem fram fer, en hægt er að kynna sér starfsemina nánar á heimasíðu stofnunarinnar. Eins og sést af dagsskránni hefur margt áunnist og kynntar verða rannsóknir sem eru í fremstu röð. Í því sambandi má nefna sérstaklega íslenskar rannsóknir á dýrasjúkdómum, sem margar hverjar hafa hotið alþjóðlegar viðurkenningar. Vegna einangrunar landsins er staða dýrasjúkdóma sérstök og tiltölulega auðvelt er að halda skráningu yfir þá. Á Íslandi eru vel skilgreindir dýrastofnar sem hafa annað næmi fyrir ýmsum sjúkdómum en gengur og gerist í heiminum. Rannsóknir á slíkum efnivið, sem byggir á ríkri hefð og sterkri sögu, hefur gefið Tilraunastöðinni sérstöðu. Vísindadagurinn er mikilvægur liður í að kynna viðkomandi rannsóknir fyrir ráðamönnum þjóðarinnar, háskólasamfélaginu, dýralæknum og íslensku samfélagi almennt. Einnig eflir dagurinn upplýsingastreymi innan Tilraunastöðvarinnar og það hvetur til aukins samráðs milli starfsmanna hennar og samstarfsaðila þeirra innanlands og erlendis. Ég vil þakka Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra fyrir stuðning við vísindadaginn. Í vísindanefnd eru Birkir Þór Bragason, Sigríður Hjartardóttir og Valgerður Andrésdóttir og vil ég þakka þeim fyrir að skipuleggja daginn. Einnig vil ég þakka þeim sem studdu okkur fjárhagslega og þeim sem sáu um að veitingar væru fram bornar. Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður.
Period30 Apr 2010
Event typeConference
LocationReykjavík, IcelandShow on map
Degree of RecognitionNational