Vísindadagur á Keldum 2006

Activity: Participating in or organising an eventOrganising a conference, workshop, ...

Description

Vísindadagur er nú haldinn á Keldum í þriðja sinn en þeir fyrri voru haldnir árin 2002 og 2004. Um er að ræða eins dags ráðstefnu sem er opin öllum áhugasömum. Fyrri hluti dagsins er tileinkaður rannsóknum á sumarexemi í hrossum og af því tilefni voru fengnir tveir erlendir gestafyrirlesarar. Sumarexem er ofnæmi gegn prótínum sem berast í hross við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides, en tegundir af þeirri ættkvísl lifa ekki á Íslandi. Hestarnir fá því ekki ofnæmið hérlendis en það er algengt vandamál í íslenskum hestum sem fluttir hafa verið úr landi. Undanfarin ár hafa farið fram rannsóknir á sumarexemi á Keldum í samstarfi við Háskólann í Bern í Sviss. Markmið rannsóknanna er að þróa bóluefni eða aðra ónæmismeðferð gegn ofnæminu. Kynntar verða niðurstöður úr samstarfsverkefninu. Dr. Eliane Marti frá dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern mun flytja yfirlitsfyrirlestur og vísindamenn frá Keldum styttri erindi. Fjallað verður um erfðir og umhverfisáhrif, Dr. Sofia Mikko frá Landbúnaðarháskólanum í Uppsölum í Svíþjóð mun kynna nýtt rannsóknarverkefni um erfðaþætti í sumarexemi. Þar sem sýkingarsaga og reynsla ónæmiskerfisins skiptir miklu máli við þróun ofnæmis lýkur fyrri hluta dagsins með erindum um veiru- og sníkjudýrasýkingar í hestum á Íslandi. Seinni hluta dags eru fyrirlestrar um ýmis verkefni í príon-, veiru-, bakteríu- og sníkjudýrafræðum. Einnig er veggspjaldasýning þar sem kynnt verða fjölbreytileg verkefni. Þeir sem segja frá rannsóknaniðurstöðum og túlkunum á þeim eru margir hverjir með áratuga reynslu af vísindastarfi. Auk þess eru yngri vísindamenn, s.s. rannsóknanámsnemendur, með kynningu á verkefnum sínum en hlutur þeirra í starfi Tilraunastöðvarinnar hefur farið vaxandi á sl. árum. Ljóst er af dagskrá að margt hefur áunnist og kynntar verða rannsóknir sem eru í fremstu röð. Einkum er um að ræða íslenskar rannsóknir á dýrasjúkdómum, sem margar hverjar hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar. Vísindadagurinn er mikilvægur liður í að kynna viðkomandi rannsóknir fyrir ráðamönnum þjóðarinnar, háskólasamfélaginu, dýralæknum og íslensku samfélagi almennt. Einnig er dagurinn mikilvægur þáttur í upplýsingstreymi innan Tilraunastöðvarinnar til að samráð verði sem best. Ég þakka Guðna Ágústssyni landbúnðarráðherra fyrir stuðning við vísindadaginn. Í vísindanefndinni eru Eggert Gunnarsson, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir og Sigurður H. Richter og vil ég þakka þeim fyrir að skipuleggja ráðstefnuna, sem og Helga S. Helgasyni framkvæmdastjóra sem með þeim starfaði. Einnig vil ég þakka þeim sem studdu vísindadaginn fjárhagslega. Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður.
Period28 Apr 2006
Event typeConference
Conference number3
LocationReykjavíkd, IcelandShow on map
Degree of RecognitionNational