Description
Eins og sjá má af dagskrá ráðstefnunnar sem ber heitið “Vísindadagur á Keldum 3. maí” er fjölþætt og öflugt vísindastarf unnið á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Einnig kemur þar fram innlegg gestafyrirlesara, sem fjalla um mál tengd Tilraunastöðinni. Tilgangur með slíkum vísindadegi er margþættur. Dagur sem þessi gefur starfsmönnum Tilraunastöðvarinnar tækifæri til að líta upp úr tilraunaglösunum og smásjánum og fara yfir gang mála. Ráðstefnan er mikilvæg fyrir innra starf Tilraunastöðvarinnar. Sérfræðingar og nemendur fá tækifæri til að segja frá sínum rannsóknum og umræðugrundvöllur skapast um þýðingu niðurstaðnanna og hvert skal halda í framtíðinni. Umræðan nær út fyrir ráðstefnudaginn, bæði í undirbúningsvinnunni og eflaust einnig eftir hann. Síðast en ekki síst stuðlar ráðstefnudagurinn að því að gera vísindaverkefnin á Tilraunastöðinni sýnilegri fyrir samstarfsfólk og aðra utan Tilraunastöðvarinnar. Ég vil færa Völu Friðriksdóttur, fræðslustjóra á Tilraunastöðinni, og þeim Bergljótu Magnadóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur og Vilhjálmi Svanssyni bestu þakkir fyrir undirbúnings- og skipulagsvinnu sem gerði ráðstefnuna mögulega. Einnig er ég þakklátur þeim fyrirtækjum sem studdu ráðstefnuna fjárhagslega. Sömuleiðis vil ég þakka þeim sem kynna verkefni í formi fyrirlestra og veggpjalda, fundarstjórum, þeim sem sjá um matar- og kaffiveitingar og öðrum sem að undirbúningi komu, fyrir þeirra framlag. Unnið hefur verið að uppsetningu nýrrar heimasíðu fyrir Tilraunastöðina sem opnuð verður á ráðstefnudaginn. Í þeirri vinnu hefur verið stefnt að því að gera upplýsingar um starfsemi Tilraunastöðvarinnar aðgengilegri og hnitmiðaðri en áður. Veffangið er: http://www.keldur.is. Ég vona að ráðstefnudagurinn reynist þátttakendum gagnlegur og þeir hafi gaman af. Væntanlega mun vísindastarfsemin verða kynnt með svipuðu sniði í framtíðinni og skoðað verður hvort það verður gert með reglulegu millibili. Því eru ábendingar um það sem betur mætti fara vel þegnar að ráðstefnu lokinni. Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður.Period | 3 May 2002 |
---|---|
Event type | Conference |
Conference number | 1 |
Location | Reykjavík, IcelandShow on map |
Degree of Recognition | National |