Tungumálastefna og starfshættir fjölskyldna innflytjenda á Íslandi og áhrif þeirra á menntun: Niðurstöður úr viðtölum við skólastjóra

Activity: Talk or presentationOral presentation

Description

Nemendum af erlendum uppruna í skólum landsins fjölgar ár frá ári og einnig eykst fjölbreytileiki í bakgrunni, menningu og tungumálum meðal þeirra. Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins LPP er að rannsaka tungumálastefnu og starfshætti fjölbreyttra fjölskyldna innflytjenda og samspil þessara þátta við skólastarfið, svo sem við stefnumótun skóla og kennslu. Sú stefna sem stjórnvöld hafa sett fram birtist meðal annars í Menntastefnu til ársins 2030, Fyrstu aðgerðaáætlun 2021-2024 og Menntun fyrir alla á Íslandi sem er úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Skólastjórnendur og annað starfsfólk skóla tekur mið af þessari stefnumótun í sínu daglega starfi.

Í LPP rannsókninni voru tekin viðtöl við sextán fjölskyldur sem rannsóknin hverfist um en einnig við kennara barnanna, móðurmálskennara og skólastjórnendur í leik- og grunnskólum þeirra. Fjölskyldurnar hafa mismunandi bakgrunn, koma víða að, búa og starfa í fjórum sveitarfélögum í fjórum landsfjórðungum.

Niðurstöður gefa til kynna að stefna skólanna um tungumálanotkun, þ.e.a.s. notkun íslensku, móðurmála nemenda og annarra tungumála, sé sjaldan skráð. Í raun var þó skýr málstefna í flestum skólanna um að tala íslensku sem allra mest og sérstaklega í kennslustundum. Skólastjórarnir virtust ekki leggja áherslu á virkt fjöltyngi í skólastarfinu. Þeir töldu hins vegar ríka þörf fyrir umræður um tungumálastefnu, hagnýta þekkingu og leiðsögn um starfshætti sem mæti vel þörfum fjöltyngdra nemenda.
Period29 Sept 2023
Event titleMenntakvika 2023: Ráðstefna í menntavísindum
Event typeConference
Conference number2023
LocationReykjavík, IcelandShow on map
Degree of RecognitionNational