Description
Fyrst eftir bankahrunið breyttust stjórnunarhættir í íslensku viðskiptalífi. Óttinn við að gera mistök varð allsráðandi og um tíma dró úr áhættusækni stjórnenda. Um áratug síðar eru hlutirnir hins vegar ört að nálgast það ástand sem áður var. Íslenskt viðskiptalíf stefnir í svipað horf þótt að „bægslaganginum sé þó núna að mestu haldið bak við tjöldin“.Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Ástu Dísar Óladóttur og Gylfa Magnússonar sem birtist í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál og ber heitið: „Var Adam ekki lengi í helvíti? Hafa stjórnunarhættir á Íslandi breyst eftir hrunið 2008?“
Greinin byggir á rannsókn höfunda sem náði til 42 stjórnenda, 31 karla og ellefu kvenna, á lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins. Voru þeir meðal annars spurðir hvort stjórnunaraðferðir þeirra hefðu eitthvað breyst eftir hrunið 2008.
Góðærið
Í greininni er rakið að fjárfestingar íslenskra fyrirtækja fyrir hrunið í október 2008 hafi verið það umfangsmiklar að Ísland leiddi World Investment Report listann ár eftir ár, allt fram til ársins 2008. „Íslenskir fjárfestar og stjórnendur fjárfestu mikið og iðulega í stærri fyrirtækjum en þeim sem þeir störfuðu fyrir eða áttu. Með viljann að vopni og nægan aðgang að fjármagni voru tækifærin á hverju strái. Umsvif íslenskra fjárfesta erlendis vöktu athygli í fjármálageiranum og í fjölmiðlum, sérstaklega í Danmörku og á Bretlandi. Tímabilið í aðdraganda hruns var iðulega kallað góðærið. Það einkenndist m.a. af mjög örum hagvexti, mikilli lántöku bæði fyrirtækja og heimila og eignaverðsbólu sem birtist bæði á fasteignamarkaði og þó sérstaklega hlutabréfamarkaði....
Period | 4 Jan 2020 |
---|