(Sér)kennsla og þjálfun ungra fatlaðra barna í nýju ljósi

Activity: Talk or presentationOral presentation

Description

Þrátt fyrir yfirlýst markmið íslenska mennta- og velferðarkerfisins um inngildandi og sveigjanlega starfshætti, greina foreldrar fatlaðra barna oft frá því að þjónustan sé sundurleit, dreifð og fremur veitt á forsendum þjónustuveitenda en þjónustunotenda. Rannsóknin sem hér er kynnt er eigindleg tilvikarannsókn á sviði fötlunarfræða og var markmiðið að öðlast dýpri skilning á þessu misræmi. Fræðileg nálgun rannsóknarinnar einkennist af samþættingu nokkurra tengdra fræðikenninga. Þar ber meðal annars að nefna félagslegan og réttindamiðaðan tengslaskilning á fötlun sem hefur þróast innan fötlunarfræða á undanförnum áratugum og er sá skilningur sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks byggir á. Félagsfræði barnæskunnar og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gegna einnig mikilvægu hlutverki ásamt menningarsögulegri starfsemiskenningu. Markmið þess hluta rannsóknarinnar sem hér er til umfjöllunar var að varpa ljósi á störf og starfsaðstæður fagfólks sem ung fötluð börn og foreldrar eru í daglegum samskiptum við. Í því skyni voru tekin þrjú rýnihópaviðtöl við alls 13 fagaðila í þremur ólíkum sveitarfélögum. Gögnin voru greind og túlkuð með hliðsjón af grunngildum fjölskyldumiðaðrar þjónustu, félagslegri og réttindamiðaðri tengslasýn á fötlun og menningarsögulegri starfsemiskenningu. Niðurstöður leiddu í ljós að fyrirkomulag þjónustunnar stjórnaðist oftast af einstaklingsmiðaðri sýn á fötlun, þröngum starfsramma fagfólks, biðlistum og að ýmis hagnýt eða pólitísk sjónarmið innan stjórnsýslunnar réðu för fremur en yfirlýst velferðarstefna eða lögbundin menntastefna. Með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar og fræðilegum grunni hennar verða kynntar hugmyndir að breyttum starfsháttum sem gætu stuðlað að nauðsynlegum umbótum. Rannsóknin er fræðilegt og hagnýtt innlegg í yfirstandandi umræðu um gildi og framkvæmd samþættrar þjónustu í þágu farsældar barna.
Period29 Sept 2023
Event titleMenntakvika 2023: Ráðstefna í menntavísindum
Event typeConference
Conference number2023
LocationReykjavík, IcelandShow on map
Degree of RecognitionNational