Opponent of the doctoral dissertation of Alexander Schepsky

Activity: Examination

Description

Föstudaginn 2. mars 2007 fór fram doktorsvörn við læknadeild Háskóla Íslands. Þá varði Alexander Schepsky líffræðingur doktorsritgerð sína: Virkni Mitf stjórnpróteinsins og áhrif beta-catenin, p66 og p300/CBP. Andmælendur voru Dr. Lionel Larue, frá Institute Curie í Frakklandi, og Dr. Sigurður Ingvarsson, prófessor og forstöðumaður Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum. Leiðbeinandi verkefnisins var Dr. Eiríkur Steingrímsson. Dr. Kristján Erlendsson, varadeildarforseti læknadeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í hátíðasal, Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Útdráttur: Þroskun, viðhald og fjölgun litfruma (melanocytes), frumanna sem mynda húð- og háralit, er algerlega háð tjáningu og virkni stjórnpróteinsins Mitf (microphthalmia-associated transcription factor). Mitf gegnir einnig veigamiklu hlutverki í endurnýjun og viðhaldi litstofnfruma auk þess sem það gegnir hlutverki í myndun sortuæxla. Mitf hefur áhrif á ýmsa ólika ferla í litfrumum svo sem frumuskiptingu, far og sérhæfingu og starfar undir stjórn ýmissa frumuboðleiða. Margt er þó óljóst um það hvernig hlutverki og virkni Mitf er stjórnað í frumunni. Markmið verkefnisins var að greina hvaða áhrif beta-catenin, p300/CBP og p66 próteinin hafa á starfsemi Mitf í litfrumum. Í ljós kom að Mitf og beta-catenin starfa saman í litfrumum og að Mitf próteinið beinir beta-catenin að Mitf sértækum stýrlum. Bæði Mitf og beta-catenin koma við sögu í þroskun litfruma og myndun litfrumuæxla og því ljóst að samstarf þessara próteina er mikilvægt. Rannsóknin sýndi einnig að samspil Mitf og p300/CBP leiðir til acetýleringar á Mitf en það hefur áhrif á DNA bindieiginleika þess. Einnig kom í ljós að Mitf getur bundist p66alpha og p66beta próteinunum, en þau eru undireiningar í Mi-2/NuRD próteinflókanum og því líklegt að hann taki þátt í að stjórna tjáningu gena sem eru mikilvæg fyrir þroskun og viðhald litfruma. Verkefnið hefur leitt til nýrra hugmynda um það hvernig hafa má áhrif á starfsemi stjórnpróteina sem taka þátt í þroskun, viðhaldi og afkomu sérhæfðra fruma. Í doktorsnefnd voru Jón J. Jónsson, Jórunn E. Eyfjörð, Sveinn Guðmundsson, Reynir Arngrímsson og Eiríkur Steingrímsson en hann var jafnframt aðalleiðbeinandi í verkefninu. Verkefnið var unnið að hluta í samstarfi við þá Andreas Hecht við Háskólann í Freiburg og Colin Goding við Marie Curie Research Institute í Bretlandi.
Period2 Mar 2007
Degree of RecognitionInternational