Description
Nemendur í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi við viðskiptadeild Háskóla Íslands áttu svokallað stefnumót við nokkra af forsvarsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja í síðustu viku. Þetta er í þriðja sinn sem slíkt stefnumót er haldið og var yfirskriftin þetta árið Nýsköpun og fæðuöryggi til framtíðar.Skipuleggjandi stefnumótsins var Ásta Dís Óladóttur, lektor í viðskiptadeild skólans, en Jón Atli Benediktsson rektor steig fyrstur á stokk, setti stefnumótið og ræddi nýsköpun í sjávarútvegi og framlagið til fæðuöryggis m.a. með tilliti til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Takmarkaðar náttúruauðlindir
Í umfjöllun um stefnumótið á vef háskólans segir að Ásta Dís ræddi þær mikilvægu áskoranir sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir og snúa allar með einum eða öðrum hætti að umræðuefni stefnumótsins. Talaði hún um að náttúruauðlindir væru takmarkaðar og að það setti vexti greinarinnar skorður.
Hún fór jafnframt yfir það að fiskveiðistjórnunarkerfið væri gott en takmarkað aðgengi að fiskistofnum hefði verið hvati til bættrar nýtingar og þar hefðu Íslendingar náð miklum árangri, t.a.m. með allt að 90% nýtingu á þorski.
Ásta Dís nefndi einnig loftslagsbreytingar, samkeppni á markaði, kröfuharðari neytendur og lög og reglugerðir sem hamla hámarksverðmætasköpun í atvinnugreininni. Að lokum fjallaði hún um að grunnurinn að aukinni nýsköpun væri þekking og að tryggja þurfi öflugt samstarf háskólasamfélagsins við sjávarútveginn til að takast á við þessar áskoranir á hagkvæman hátt og í sátt við náttúruna. Með því gætum við ýtt undir samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs og síðast en ekki síst aukið fæðuöryggi, sem er mikilvægt nú á tímum nokkurrar óvissu.
Minna land og minna vatn
Guðbjörg Matthíasdóttir, eigandi Ísfélags Vestmannaeyja, reið á vaðið og fjallaði um fjárfestingu Ísfélagsins í Algaennovation, sem er smáþörungaverksmiðja á Hellisheiði. Búið er að byggja fyrsta verksmiðjuhúsið og setja í gang fyrstu framleiðslueininguna. Virði félagsins er ekki fólgið í þörungunum sem tækin skila út úr sér heldur í tækninni sem verið er að bjóða upp á. Hægt er að rækta nánast hvaða þörunga sem er með þessari tækni. Stofnendur vildu finna aðferð til þess að framleiða mat á nýjan hátt. Með þessari aðferð er hægt að rækta eitt kíló af próteini og nota til þess 1.500 sinnum minna land og 500 sinnum minna vatn heldur en þarf til að rækta sojabaunir. Þetta gæti verið einn af lyklunum við að leysa fæðuvanda heimsins.
Þá fór Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, yfir tildrög og hvatann til nýsköpunar í sjávarútvegi. Ræddi Pétur mikilvægi samtengingar veiða, vinnslu og sölu, hvernig íslenskir aðilar gætu haldið sem mestu eftir af því sem hver neytandi erlendis greiðir fyrir fiskinn út úr verslun þar, og að það væri innbyggður hvati hjá fyrirtækjum og einstaklingum til að skapa sem mest úr því sem skynsamlegt er að veiða. „Það væri hins vegar væntanlega næsta kynslóð sem myndi ná að hámarka að fullu nýtinguna,“ er haft eftir Pétri í frétt háskólans.
Selur sig sjálft
Næst ræddi Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Niceland um sölu og markaðsmál í sjávarútvegi. Erindið bar yfirskriftina „Þetta selur sig sjálft“. Lausnin sem Niceland býður viðskiptavinum sínum nær yfir alla virðiskeðjuna.
„Hluti af lausninni sem við erum að bjóða upp á er greining og framsetning á gögnum, við erum að safna gögnum frá allri virðiskeðjunni og setja fram í mjög öflugu og gagnvirku kerfi, þannig að samstarfsaðilar okkar geta fylgst með sinni framsetningu í rauntíma og komið henni betur til skila til neytenda. Við leggjum mikið uppúr markaðsstarfi á öllum miðlum hvar svo sem neytandinn getur gripið þær. Þetta er ekki einskiptis aðgerð, heldur þrotlaus vinna sem tekur langan tíma og þarf að endurtaka mjög oft eigi hún að skila sér,“ sagði Heiða Kristín og eftir henni er haft í frétt háskólans.
Röntgen og róbótar
Kristján Hallvarðsson hjá Völku, fjallaði um röntgen, róbóta og gervigreind í fiskvinnslu, en allt hefur það ýtt undir aukna framleiðni í sjávarútvegi. Valka er í samstarfi við íslensk fyrirtæki um þróun og selur lausnir sínar um allan heim, m.a. til Noregs, Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands, Póllands, Litháen, Hollands og Nýja-Sjálands.
Kristján talaði um að mikilvægast væri að ekki yrði gengið á auðlindina og að mengun hafsins yrði að vera í lágmarki. Þá sagði hann „að nauðsynlegt væri að tryggja að meðhöndlun aflans sé þannig að gæðin séu varðveitt og að frábær árangur hafi náðst í þessu með eldislax sem sýnir að unnt er að ná sama árangri í villtum fiski við Íslandsstrendur“.
Kristján bætti við að „best væri að mínu mati ef allar þjóðir við Norður-Atlantshafið myndu vinna saman að þessu markmiði.“ Þá taldi Kristján að leitast ætti við að fullvinna fiskinn þar sem honum er landað og sleppa frystingu þegar það er hægt.
Period | 1 Apr 2020 |
---|