Description
Konur stýra 13% fyrirtækja sem hafa fleiri en 50 starfsmenn og engu fyrirtæki sem skráð er í kauphöllina hefur verið stýrt af konu frá árinu 2016. Þessar niðurstöður kalla á breytingar og á opnum fundi í HÍ var m.a. lagt til að stjórnir lífeyrissjóða gerðu kröfur um jafnara kynjahlutfall í eigendastefnu sinni.„Lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar á markaðnum, í skráðu félögunum eru þeir langstærstu fjárfestarnir. Þeir ættu að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og setja inn í eigendastefnu sína að hlutfall hvors kyns [í framkvæmdastjórastöðum] yrði ekki undir 40%,“ segir Ásta Dís Óladóttir lektor við viðskiptafræðideild HÍ.
Fyrir stuttu voru kynntu þau Ásta Dís, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent og Þóra H. Christiansen aðjunkt niðurstöður rannsóknar á misvægi kynjanna í stjórnunarstöðum hér á landi. Öll starfa þau við viðskiptadeild Háskóla Íslands og var fundurinn á vegum deildarinnar. Hann sóttu m.a. Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, Vigdís Finnbogadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, forsetafrúin Eliza Reid og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Í samtali við mbl.is segir Ásta Dís að vonir hefðu staðið til að lagasetning fyrir tíu árum, um jöfnun kynjahlutfalls í stjórnum fyrirtækja, myndi jafnframt skila fleiri konum í stjórnunarstöður í íslensku atvinnulífi. Komið hefur á daginn að það gerðist ekki.
Í pallborði fundarins voru þau Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar en Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA stýrði fundinum.
Period | 30 Jan 2020 |
---|