Description
Áratugur frá lagasetningu um kynjakvótaViðskiptafræðideild stóð fyrir opnum fundi um stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi þann 28. janúar síðastliðinn. Kveikjan að fundinum voru niðurstöður rannsóknar sem Ásta Dís Óladóttir, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson og Þóra H. Christiansen birtu í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla undir lok síðsta árs og bar heitið Er skortur á framboði eða er engin eftirspurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður?
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands setti fundinn og fagnaði því að umræða um svo mikilvægt viðfangsefni væri tekin á vettvangi Háskóla Íslands. Benti hann á að jafnrétti sé eitt þriggja grunngilda háskólans og markmið nr. 5 í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
„Heldur fagna ég umræðunni einnig vegna þess að það skiptir máli að hér í Háskóla Íslands fari fram umræða um mikilvægustu úrlausnarefni samtímans, og að sú umræða sé byggð á bestu mögulegu gögnum og nýjustu rannsóknum sem til eru.“
Á eftir rektor steig Ásta Dís Óladóttir í pontu og flutti erindi sitt „Misvægi kynja í æðstu stjórnunarstöðum“ þar sem meðal annars kom fram að í stefnu HÍ sé sú lykiláhersla að starf háskólans hafi víðtæk áhrif og að í því sé tekist á við áskoranir samtímans. Einn margra kosta við félagslegar rannsóknir er sá að þær geta vakið upp umræðu í samfélaginu og þannig leitt til þess að gripið sé til aðgerða ef nauðsyn krefur.
„Nú er tæpur áratugur síðan kynjakvótalög á stjórnir voru sett hér á landi og því má fagna að þau leiddu til talsverðra breytinga í þá átt að fjölga konum í stjórnum. Margir bundu vonir við smitáhrif, að konum myndi fjölga í framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum. En sú hefur ekki verið raunin.“
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stór hópur kvenna vilji innleiða lög um kynjakvóta fyrir framkvæmdastjórnir fyrirtækja á Íslandi, þótt ekki væri nema tímabundið, til að leiðrétta kynjahallann. Margar þeirra nefndu að þær hefðu verið á móti kynjakvóta fyrir stjórnir félaga en eftir að hafa séð árangurinn þar og hvernig staðan er nú í stjórnunarstöðum þá séu þær tilbúnar að taka þetta skref. Margar þeirra telja að ákveðið karlaveldi sé til staðar í kringum æðstu stjórnunarstöður. Ástæðan sé ekki sú að skortur sé á hæfileikaríkum konum til að sinna starfi æðstu stjórnenda en þar sem karlar eru í meirihluta þeirra sem taka ákvarðanir um ráðningu í framkvæmdastjórn væri möguleiki kvenna takmarkaðri. Þetta var meðal annars útskýrt með öflugu tengslaneti karla og að það tengslanet horfi síður til kvenna og þekkingar þeirra. Karlar fái fleiri tækifæri, meiri reynslu og þjálfun yfir starfsævina sem veitir þeim ákveðið forskot. Þetta skýri hins vegar ekki hvers vegna engin kona er forstjóri í skráðu félagi þar sem konur sitja í stjórnum og stjórnir ráða forstjóra.
Ásta Dís Óladóttir kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar en í pallborði sátu þau Hanna Katrín Friðriksson, Magnús Harðarson og Þórey S. Þórðardóttir.
Period | 4 Feb 2020 |
---|