Description
Ásta Dís Óladóttir, formaður grunnnámsnefndar í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, undirrituðu í dag fyrsta starfsþjálfunarsamning í sögu deildarinnar. Með þessu var ýtt úr vör verkefni sem gerir nemendum á þriðja ári í viðskiptafræði kleift að sækja um starfsþjálfun hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum.Grunnnámsnefnd hefur séð um undirbúning verkefnisins fyrir hönd deildarinnar í góðu samstarfi við Tengslatorg Háskóla Íslands. Tengslatorg (tengslatorg.hi.is) er stafrænn samstarfsvettvangur Háskóla Íslands og atvinnulífsins þar sem hægt er að koma á samstarfi við nemendur og rannsakendur skólans. Með þessum fyrsta starfsþjálfunarsamningi opnast fjölmörg tækifæri fyrir nemendur til að kynnast ýmsum atvinnugreinum og hljóta þjálfun í því sem þau hafa lært í sínu námi.
„Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands er í miklum tengslum við atvinnulífið og vildum við nýta þau tengsl nemendum til hagsbóta. Í samtölum okkar við nemendur hafa komið fram óskir um starfsþjálfun, þau vilja fá tækifæri til að beita því sem þau eru að læra í viðskiptafræðinni í atvinnulífinu. Kennarar deildar hafa markvisst unnið að því að auka tengslin með því að fá gesti úr atvinnulífinu, sem og að fara með nemendur í fyrirtækjaheimsóknir. Það er því sérstaklega ánægjulegt að geta nú boðið nemendum tækifæri til starfsþjálfunar og þannig komið til móts við óskir og þarfir nemenda. Verkefnið eflir enn frekar þau tengsl sem Viðskiptafræðideild hefur við íslenskt atvinnulíf í gegnum kennara og starfsfólk deildarinnar og nýtist það nú enn frekar fyrir nemendur og gerir þá betur í stakk búna til að takast á við raunveruleg verkefni þegar þau hefja sinn atvinnuferil“ segir Ásta Dís.
Samningurinn við Vegagerðina sem var undirritaður í dag er sá fyrsti af mörgum og með honum er brotið blað í rúmlega 80 ára sögu deildarinnar. Þá hefur þetta einnig haft í för með sér að starfsþjálfun verður líka í boði í meistaranámi frá og með næsta hausti.
Period | 13 May 2020 |
---|