Activity: Other › Educational material
Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands býður nemendum upp á starfsþjálfun í fyrsta sinn haustið 2020. Tvö fyrirtæki hafa bæst í hóp þeirra sem hyggjast taka þátt í verkefninu, en Ásta Dís Óladóttir formaður grunnnámsnefndar í Viðskiptafræðideild undirritaði samninga þess efnis í gær, annars vegar við Katrínu S. Óladóttur framkvæmdastjóra Hagvangs og hins vegar við Helgu Valfells, einn stofnanda og eiganda Crowberry Capital. „Hagvangur hefur í áratugi átt í góðum samskiptum við háskólasamfélagið og þessi samningur Viðskiptafræðideildar við Hagvang staðfestir það. Nemandinn sem fær úthlutað plássi í starfsþjálfun hjá Hagvangi mun í gegnum tengsl okkar öðlast góða innsýn inn í atvinnulífið í gegnum þau verkefni sem viðkomandi verða falin. Starfsþjálfun fyrir þriðja árs nema getur auk þess opnað ýmsa aðra möguleika varðandi ákvörðun um frekara nám í framtíðinni. Hvað Hagvang varðar skiptir það fyrirtækið miklu máli að fylgjast með þróun háskólanáms og geta þannig betur þjónað kröfuhörðum viðskiptavinum sem vilja framúrskarandi starfsfólk í sínar raðir“ sagði Katrín S. Óladóttir, við undirritun samningsins í gær. Helga Valfells var ánægð með upphafið að þessu nýja samstarfi og sagði: ,,Crowberry sérhæfir sig í Visi fjárfestingum, það er fjárfesting í nýsköpunarfyrirtækjum sem ætla að vaxa hratt á alþjóðamarkaði. Crowberry hefur þegar fjárfest í 12 fyrirtækjum sem starfa út um allan heim og því ljóst að þarna eru spennandi verkefni fyrir nemendur sem vilja kynnast heimi visisjóða og alþjóðlegu nýsköpunarumhverfi, hvort sem það er í markaðsmálum, fjármálum eða greiningarvinnu. Við hjá Crowberry Capital sjáum mikil tækifæri í þessu samstarfi við Viðskiptafræðideild Háskólans, enda byggir deildin á rúmlega 80 ára sögu viðskiptafræðimenntunar á Íslandi. Crowberry var stofnað í júlí 2017“. Ásta Dís sagði ,,það er ánægjulegt að skrifa undir samning við fjárfestingasjóð sem stofnaður er af konum, enda hafa konur alltaf verið í miklum minnihluta þeirra sem fara með fjármagn í atvinnulífinu. Þá hefur sjóðurinn fjárfest markvisst í öflugum fyrirtækjum með mikla möguleika, ég sé því mörg áhugaverð tækifæri fyrir nemendur til að læra hjá Crowberry Capital“.