Description
Í opinberri umræðu hefur móðurhlutverkinu verið lýst sem vali sem tryggir lífsfyllingu kvenna. Samfélagslegar hugmyndir um hvernig sé best að vera góð móðir eru þó misvísandi og rannsóknir sýna að mæðrum finnist stundum erfitt að átta sig á til hvers er ætlast af þeim. Í þessum fyrirlestri greinum við frá niðurstöðum rafrænnar eigindlegrar spurningalistakönnunar þar sem þátttakendur voru beðnir um að gefa dæmi um tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, sem þeir tengdu við foreldrahlutverkið. Við beitum kenningarramma um orðræður og hrif við þemagreiningu á gögnunum. Höfuðáhersla er lögð á að greina svör frá þeim 374 þátttakendum sem skilgreindu sig sem mæður en við berum þau jafnframt saman við 76 svör frá þátttakendum sem skilgreindu sig sem feður. Niðurstöður sýna að þátttakendur nota hugmyndir um skömm og samviskubit nokkuð samhliða og erfitt að greina á milli. Mæður töldu sig vera að bregðast í hlutverki sínu ef þær veittu ekki börnum sínum fulla og óskoraða athygli. Þær lýstu samviskubiti/sektarkennd vegna vinnu utan heimilis og fyrir að verja tíma í annað en barnið sitt t.d. húsverk og skömm fyrir að dreyma um tíma fyrir sjálfar sig. Feður lýstu einnig samviskubiti vegna vinnu utan heimilis en töldu sig vera að bregðast maka frekar en börnum sínum. Rannsóknin veitir innsýn í þau flóknu tengsl sem konur hafa við móðurhlutverkið og hvernig hugmyndir og kröfur nýfrjálshyggjunnar um t.d. ákafa mæðrun hafa haft áhrif á innra líf þeirra og skapa óraunhæfar væntingar til mæðra.Period | 29 Sept 2023 |
---|---|
Event title | Menntakvika 2023: Ráðstefna í menntavísindum |
Event type | Conference |
Conference number | 2023 |
Location | Reykjavík, IcelandShow on map |
Degree of Recognition | National |